Erlent

Íhaldsmaður vill bylta löggjöf Breta um kannabis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
William Hague er enn þungavigtarmaður í Íhaldsflokknum.
William Hague er enn þungavigtarmaður í Íhaldsflokknum. Vísir/Getty
Fyrrverandi formaður breska íhaldsflokksins, William Hague, kallar eftir því að stjórnvöld þar í landi gjörbylti löggjöf sinni um kannabis. Í grein sem hann ritar í The Daily Telegraph segir Haugue að stríðið sem Bretar hafi háð við fíkniefnið hafi algjörlega tapast.

Mál 12 ára flogaveiks drengs, sem fékk undanþágu til að nota kannabisolíu í meðferðarskyni, virðist hafa vera vendipunktur í umræðunni um notkun efnisins í Bretlandi. Fjölmargir íhaldsmenn hafa talað fyrir breytingum í málaflokknum, en enginn þó lengra en fyrrverandi formaðurinn.

Mikið fjölmiðlafár braust út í Bretlandi í liðinni viku þegar kannabisolía var tekin af hinum 12 ára gamla Billy Caldwell á Heathrow-flugvelli. Mamma hans hafði reynt að flytja inn olíuna frá Kanada sem hún hugðist nota til að slá á einkenni flogaveikinnar sem drengurinn glímir við.

Innanríkisráðuneytið skilaði hluta olíunnar eftir að heilbrigðisstarfsmenn höfðu staðfest að drengurinn þyrfti á olíunni að halda í lækningaskyni. Billy Caldwell var útskrifaður af spítala í gær en mun áfram neyta kannabisolíunnar heimafyrir.

Billy Caldwell ásamt móður sinni fyrir utan spítalann í gær.Vísir/getty
Fyrrnefndur Hague segir að Caldwell-málið sýni svart á hvítu hvað stefnan í málaflokknum er „óviðeigandi, óáhrifarík og gamaldags.“ Með því að skila hluta olíunnar hafi innanríkisráðuneytið í raun viðurkennt að löggjöfin sé „óverjandi.“

Hann skorar á aðra íhaldsmenn að vera jafn framsækna og stjórnvöld í Kanada sem íhuga nú að leyfa neyslu kannabis, jafnt í lækninga- sem og í afþreyingarskyni. Þar að auki segir Hague að margir milljarðar punda myndu hverfa af svarta markaðnum verði kannabis dregið upp á yfirborðið.

Ummæli Hague bera með sér að hann hefur skipt rækilega um skoðun í málaflokknum. Þegar hann var leiðtogi íhaldsmanna á árunum 1997 til 2001 talaði hann ætíð fyrir harðri fíkniefnalöggjöf.

Bresk stjórnvöld hafa sagst ætla að koma á laggirnar nefnd sérfræðinga, sem taka mun ákvarðanir um veitingu undanþága til notkunar kannabis í lækningaskyni.

Grein William Hague má nálgast hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×