Innlent

Evrópusambandið segir samningaviðræður geta hafist

simon@stod2.is skrifar
Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það sé tilbúið að hefja eiginlegar samningaviðræður við Íslendinga og leggur til að viðræðurnar hefjist formlega 17. júní, á þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Sameiginleg þingnefnd Íslands og Evrópusambandsins fundaði í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Eftir fundinn kom þessi yfirlýsing frá forsæti Evrópusambandsins sem er í höndum Ungverja. Þeir segjast styðja aðildarferli Íslendinga og miðað við stöðu Íslands sé kominn tími á að formlegar aðildarviðræður hefjist.

Eiríkur Bergmann Einarsson segir þetta stórar fréttir fyrir Ísland.

„Það merkilegasta við þennan fund er að forsæti Evrópusambandsins, sem nú er í höndum Ungverja. lýstu því yfir , eftir fundinn, að forsætið væri fyrir sitt leyti reiðubúið til að hefja núna upp úr miðjum júní efnislegar aðildarviðræður og þar með ljúki þessari rýnivinnu," segir Eiríkur. „Núna hefjast þá efnislegar aðildarviðræður og opnaður verði fimm af þrjátíu og fimm efnisköflum sem þessar samningsviðræður munu ganga eftir."

Þessir fimm kaflar eru ekki þeir umdeildustu, líkt og kaflinn um landbúnaðinn eða stjórn fiskveiðiauðlyndanna. Þeir eru samkvæmt Eiríki - Opinber útboð, Samkeppnismál, Upplýsingatækni og fjölmiðlun, Vísindi og rannsóknir og Menntun og menning.

En hvenær munu formlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið þá hefjast.

„Það kann að vera að það verði á þjóðhátíðardaginn okkar 17. júní sem þessi formlegi fundur verður haldinn og í kjölfarið á því hægt að fara að ræða efnisatriðin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×