Innlent

Braust inn, stal skartgripum og kveikti í rúmi

Húsið í Reykjanesbæ sem maðurinn er ákærður fyrir að hafa kveikt í.
Húsið í Reykjanesbæ sem maðurinn er ákærður fyrir að hafa kveikt í.
Ríkissaksóknari hefur ákært tæplega þrítugan karlmann fyrir þjófnað, húsbrot, brennu og eignaspjöll.

Manninum er gefið að sök að hafa brotist inn á neðri hæð íbúðarhúss í Reykjanesbæ í febrúar 2007. Hann komst inn með því að spenna upp glugga. Úr íbúðinni stal hann skartgripum að andvirði ríflega hundrað þúsund króna, að því er segir í ákæru. Þá skemmdi hann bæði innanstokksmuni og gólfefni í svefnherbergi íbúðarinnar.

Einnig er manninum gefið að sök að hafa síðan farið í heimildarleysi í íbúð á efri hæð hússins. Þar braut hann spegil á baðherbergi og kveikti svo í rúmi í svefnherbergi. Með þessu olli hann eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, því eldurinn barst í aðliggjandi herbergi íbúðarinnar og fram á stigagang. Slökkviliðið náði fljótlega að ráða niðurlögum eldsins, en talsverðar skemmdir urðu á húsinu.

Maðurinn er ennfremur ákærður fyrir að stela lyklum og peningum úr bíl og taka svo annan bíl í nágrenninu í heimildarleysi og aka um á honum þar til lögreglan stöðvaði hann.

Maðurinn er krafinn um rúmar 15,5 milljónir króna af tveimur tryggingafélögum.-j ss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×