Handbolti

Katar 99 prósent tilbúið fyrir HM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verða íslenskir stuðningsmenn áberandi í stúkunni á HM?
Verða íslenskir stuðningsmenn áberandi í stúkunni á HM? Vísir/Ernir
HM í handbolta hefst á fimmtudaginn með opnunarleik Katar og Brasilíu en fyrsti leikur íslenska landsliðsins er síðan á móti Svíþjóð daginn eftir.

Thani al-Kuwari, yfirmaður skipulagsnefndar heimsmeistarakeppninnar í Katar, er ánægður með stöðuna í undirbúningnum fyrir keppnina en hann var tekinn í viðtal á AFP-fréttastofunni.

„Við höfum lokið 99 prósent af undirbúningsvinnunni og það á aðeins eftir að ganga frá litlum hlutum," sagði Thani al-Kuwari við AFP.

Setningarathöfnin mun fara fram í Lusail Hall sem tekur fimmtán þúsund manns. Leikirnir fara líka fram í Al-Sadd Club og Duhail höllunum sem taka sjö þúsund og fjögur þúsund manns. Fyrsti leikur Íslands er í Al-Sadd Club höllinni sem var byggð fyrir keppnina.

„Það hefur enginn dáið við byggingu íþróttahallanna," sagði Thani al-Kuwari en Katar hefur legið undir ásökunum að níðast á erlendum verkamönnum sem vinna við erfiðar aðstæður og fá lágt kaup.

26 þúsund verkamenn hafa unnið á tveimur vöktum til að gera allt klárt fyrir heimsmeistaramótið. Lusail Hall, aðalhöll keppninnar, hefur verið í byggingu frá 2012 og um 31 milljón vinnustundir eru að baki hjá þeim sem unnið við að koma henni upp í tæka tíð fyrir fyrsta leik.  

Thani al-Kuwari viðurkennir að Katar sé meiri fótboltaþjóð en handboltaþjóð en staðfestir að um sjö þúsund manna stuðningslið sé að koma til Katar í tengslum við keppnina. Hallirnar verða því ekki tómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×