Innlent

Ennþá er óhætt að klippa trjáplöntur

Þrátt fyrir að komið sé undir lok apríl er enn ekki of seint að klippa trén í garðinum.Fréttablaðið/Hörður
Þrátt fyrir að komið sé undir lok apríl er enn ekki of seint að klippa trén í garðinum.Fréttablaðið/Hörður
Þrátt fyrir að komið sé fram í lok apríl og farið sé að örla á síðbúnu sumri er enn ekki of seint að klippa garðplöntur líkt og tré og runna.

Að sögn Ingvars Magnússonar, skrúðgarðyrkjufræðings og annars eiganda fyrirtækisins Garðmeistara ehf., hefur kalsatíðin sem verið hefur í vor haft þau áhrif að gróður fer mjög seint af stað þetta árið. Því mæli ekkert gegn því að að klippa tré um þessar mundir.

„Þetta er bara rétt að komast af stað núna,“ segir Ingvar og bætir við að í raun sé ekkert sem banni að klippa flestallar tegundir allan ársins hring. Þó sé jafnan betra að klippa plönturnar þegar þær eru enn í vetrardvala.

„Það er alltaf betra að klippa áður en fer að blæða úr sárunum, en blæðingarnar byrja þegar allt er komið af stað í trjánum. En þetta fer annars allt eftir tegundum. Sumar þeirra þola vel að vera klipptar á sumrin en aðrar ekki, þannig að það er ekki hægt að nefna einhvern einn tíma sem er best til þess fallinn að klippa.“

Ingvar segir að garðyrkjufyrirtæki séu enn á fullu að klippa í görðum fólks og verði að því um það bil fram í miðjan maí, þegar þau snúi sér að öðrum verkefnum.

Spurður segir hann að í raun sé ekki hægt að ræða um að tré séu klippt of snemma árs.

„Nei, það er ekki svo. Eins og staðan er núna hjá okkur erum við að klára síðustu kúnnana í trjáklippingum og förum svo út í hellulagnir, en yfirleitt eru garðyrkjumenn að byrja klippingar jafnvel strax í janúar. Nú hefur verið svo mikill snjór að þessi vinna fór seinna af stað, því að það er erfitt að klippa þegar snjór er á trjám.“

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×