Innlent

„Maður fann alveg að það greip um sig mikil hræðsla í borginni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásta Guðmundsdóttir, íbúi í Sydney, segir borgina hreinlega hafa stoppað fyrsta klukkutímann eftir að ljóst var að maður hefði tekið gísla á kaffihúsinu Lindt í Martin Place.
Ásta Guðmundsdóttir, íbúi í Sydney, segir borgina hreinlega hafa stoppað fyrsta klukkutímann eftir að ljóst var að maður hefði tekið gísla á kaffihúsinu Lindt í Martin Place. Mynd/Getty/Ásta Guðmundsdóttir
„Ég var í vinnunni þegar þetta gerist og frétti af þessu um tíuleytið. Ég hringi strax í manninn minn sem er að vinna í Surrey Hills sem er næsta hverfi við Martin Place þar sem gíslatakan var. Ég veit að strætóinn hans fer þarna framhjá á morgnana en hann svaraði strax og það var allt í lagi með hann. Ég læt svo samstarfsfélaga mína vita af þessu og það taka bara allir upp símann og hringja í sína nánustu. Borgin stoppar eiginlega bara þarna fyrsta klukkutímann eftir að þetta gerist,“ segir Ásta Guðmundsdóttir, íbúi í Sydney, en Man Haron Monis hélt fólki föngnu á kaffihúsi þar í borg í tæpan sólarhring.

Ásta segir marga eiga erindi í hverfið Martin Place, viðskiptahverfi Sydney. Mörg fyrirtæki eru til að mynda með aðalskrifstofur sínar í hverfinu.

„Maður fann alveg að það greip um sig mikil hræðsla í borginni. Það var mikill erill og fólk var einhvern veginn bara að spá í þessu, hvort þeir þekktu einhvern þarna og þannig.“

Það hafi svo verið misvísandi skilaboð í fréttamiðlum úti að sögn Ástu, til dæmis um hversu margir væru að verki í gíslatökunni og hvort að hún tengdist öðrum hryðjuverkum, til að mynda hryðjuverkaárás sem tókst að koma í veg fyrir í Queensland í Ástralíu í september síðastliðnum. Ásta segir að fólk hafi óttast það mjög að um stóra hryðjuverkaárás væri að ræða.

Gíslatakan hafði mikil áhrif á samgöngur og var fjölda gatna í miðborg Sydney lokað, þar á meðal Elizabeth Street sem liggur upp að Martin Place.Mynd/Ásta Guðmundsdóttir
Sydney var eins og draugaborg

Aðspurð hvort að Ástralir líti almennt á hryðjuverkaárásir sem ógn við öryggi sitt segir Ásta:

„Ekki að mínu mati, nei. Þetta er bara rosalega friðsæl borg og öryggi þínu er ekki ógnað. Þannig að þetta kom held ég rosalega mörgum mjög á óvart og fólk var bara í sjokki. Það býst enginn við svona í Sydney.“

Gíslatakan hafði mikil áhrif á samgöngur í borginni og var Sydney-brúnni lokað um tíma. Ásta segir að það hafi skapað óvissu hjá fólki um hvernig það ætti að komast heim til sín úr vinnu.

„Brúin skiptir borginni í norður-og suðurhluta og við búum hérna í norðurhlutanum. Ég vinn hér en maðurinn minn vinnur í suðurhlutanum og þarf því að fara yfir brúna. Hann var því fastur hinu megin í smástund og samstarfsfélagar mínir sem þurfa að fara yfir brúna þeir voru hreinlega ekki vissir um að þeir kæmust heim.“

Í eftirmiðdaginn hafi brúin svo verið opnuð að hluta en að auki var götum í um 1 kílómetra radíus frá Martin Place lokað.

Ásta segir að fólk tali um að Sydney hafi verið eins og draugaborg í gær, ekki bara í miðbænum, heldur víðar. Til að mynda hafi maðurinn hennar verið mjög snöggur heim úr vinnunni þar sem svo fáir voru á ferli í borginni.

 

Aðspurð hvort hún upplifi það sem svo að ástralska þjóðin hafi þjappað sér saman í kjölfar gíslatökunnar, eins og Tony Abbott, forsætisráðherra, hvatti til, segir Ásta erfitt að leggja mat á það núna.

„Þetta gerðist náttúrulega bara í gær svo það er erfitt að segja hvernig fólk mun taka á þessu nú þegar öllu er lokið. Það mun held ég bara koma í ljós á næstu dögum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×