Fótbolti

Sara Björk kom inn af bekknum í stórsigri Wolfsburg | Tap hjá Söndru Maríu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landsliðsfyrirliðinn hóf leikinn á bekknum hjá Wolfsburg.
Landsliðsfyrirliðinn hóf leikinn á bekknum hjá Wolfsburg. Vísir/Getty

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir lék aðeins 25 mínútur í stórsigri Wolfsburg á USV Jena í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þá kom Sandra María Jessen af varamannabekk Bayer Leverkusen er liðið tapaði 1-0 á útivelli gegn SC Sand.

Sigur Wolfsburg var aldrei í hættu en liðið valtaði yfir mótherja sinn í dag líkt og svo oft áður. Sigurinn þýðir að liðið er enn með átta stiga forystu á toppi deildarinnar en Bayern München er í 2. sæti deildarinnar með 38 stig á meðan Wolfsburg situr þægilega í efsta sæti með 46 stig. Þá hafa Sara Björk og stollur hennar skorað 74 mörk í þeim 16 leikjum sem búnir eru og aðeins fengið á sig sjö.

Bayer Leverkusen er á hinum enda töflunnar, aðeins sex stigum frá fallsæti. Liðið hefði þurft á sigri að halda í dag til að breikka bilið og koma sér nær liðunum fyrir ofan sig í töflunni. Sandra María kom aðeins inn á í tíu mínútur undir lok leiks þegar Leverkusen freistaði þess að jafna metin. Liðið er sem stendur í 9. sæti af 12 liðum með 13 stig en tvö lið falla úr deildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×