Innlent

Hátt í áttatíu Íslendingar væntanlegir frá Veróna á laugardag

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil hundslappadrífa tók á móti Íslendingunum sem komu frá Veróna í gær.
Mikil hundslappadrífa tók á móti Íslendingunum sem komu frá Veróna í gær. Stöð 2

Flugvél með um sjötíu til áttatíu Íslendingum er væntanleg hingað til lands frá Veróna á Ítalíu næstkomandi laugardag. Ferðin er á vegum ferðaskrifstofunnar Vita en um er að ræða heimferð hóps sem fór út til Veróna í gær.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort gripið verði til sérstakra ráðstafana við heimkomu í kjölfar þess að þrír Íslendingar hafa nú smitast af kórónuveirunni. Öll dvöldu þau á Ítalíu og kom einn þeirra með leiguflugi Icelandair frá Veróna í gær en sú ferð var einnig á vegum Vita. Öllum farþegum þeirrar vélar hefur nú verið gert að fara í tveggja vikna sóttkví.

Staðfest er að minnst tveir þeirra smituðu dvöldu utan skilgreindra áhættusvæða á Ítalíu. Í kjölfar annars smitsins var áhættumati vegna ferðalaga til Ítalíu breytt. Nú er landið allt flokkað sem áhættusvæði með mikla smitáhættu.

Um að ræða síðustu skíðaferðina

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Vita, segir í samtali við Vísi að um hafi verið að ræða síðustu skíðaferðina til Veróna á vegum ferðaskrifstofunnar í bili.

Aðspurður um það hvort gripið verði til sérstakra ráðstafana í ljósi frétta dagsins segir hann að enn eigi eftir að fara betur yfir málin í ljósi þess hve stutt er síðan fregnirnar bárust. Staðan verði tekin í fyrramálið með fararstjóra íslenska hópsins en þó sé ljóst að samráð verði haft við heilbrigðisyfirvöld.

Vita aflýsti í síðustu viku fyrirhugaðri ferð sinni til Veróna um næstu helgi og var einnig búið að aflýsa fyrirhugaðri ferð til Kína um páskana.

„Þannig að við erum ekki með neinar fyrirhugaðar ferðir til áhættusvæða.“

Icelandair ekki með áfangastaði á Ítalíu

Að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur flugvélin sem kom frá Veróna í gær verið sótthreinsuð umfram þær kröfur sem yfirvöld gera til félagsins.

Hún segir að Icelandair sé ekki með neina áfangastaði á Ítalíu í leiðakerfi sínu en að félagið sjái þó um leiguflug þangað á vegum Vita.

Fram kom í tilkynningu frá samhæfingarstöð almannavarna í kvöld að stjórnendur Icelandair hafi fundað með sóttvarnalækni og fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í kvöld. Á meðal þess sem var ákveðið á þeim fundi var að áhafnir Icelandair muni dreifa upplýsingamiðum til allra þeirra sem ferðast munu með flugfélaginu til Íslands.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hátt í 300 manns í sótt­kví á Ís­landi vegna kórónu­veirunnar

Annar Íslendingur hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Þetta fékkst staðfest laust fyrir kl. 18:00 í dag. Einstaklingurinn er karlmaður á sextugsaldri og hafði hann verið á ferðalagi á Ítalíu en var utan skilgreinds hættusvæðis. Maðurinn er nú í heimasóttkví og er ekki mikið veikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×