Enski boltinn

Schmeichel sló pabba sínum við

Sindri Sverrisson skrifar
Kasper Schmeichel ver vítaspyrnu Sergio Agüero.
Kasper Schmeichel ver vítaspyrnu Sergio Agüero. vísir/getty

Kasper Schmeichel þarf að verða Englandsmeistari fjórum sinnum í viðbót til að jafna við Peter Schmeichel, föður sinn, en í gær tók hann fram úr þeim gamla að einu leyti.

Kasper, sem varð Englandsmeistari með Leicester árið 2016, varði í gær vítaspyrnu frá Sergio Agüero í 1-0 tapinu gegn Manchester City. Þar með hefur hann varið fjögur víti á ferlinum í ensku úrvalsdeildinni, einu fleiri en Peter gerði á sínum níu leiktíðum í deildinni.

Peter getur eftir sem áður bent á öll verðlaunin sem hann vann með Manchester United á tíunda áratug síðustu aldar, og reyndar kannski þá staðreynd að ef til vill er ekki eins merkilegt að verja víti gegn Manchester City og áður. City-menn hafa nefnilega klúðrað fjórum síðustu vítaspyrnum sínum í röð.

Tölfræðiveitan Squawka bendir á að liðin tvö í Manchesterborg hafi raunar klúðrað fleiri vítaspyrnum samanlagt í vetur en öll hin 18 liðin í deildinni til samans. Manchester United hefur klúðrað 4 af 9 spyrnum sínum en City 4 af 7 spyrnum. Hin liðin hafa samtals klúðrað 7 spyrnum.

„Við höfum ekki nýtt síðustu fjögur víti í röð en kannski skorum við úr víti þegar við þurfum á því að halda. Markmennirnir eru líka góðir en næst munum við skora,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, við BBC í gærkvöld.


Tengdar fréttir

Jesus skaut Man. City enn nær silfrinu

Gabriel Jesus skoraði sigurmarkið þegar Manchester City vann Leicester 1-0 í slag liðanna í 2. og 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×