Innlent

Þórunn full tilhlökkunar að snúa aftur á þing eftir veikindaleyfi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórunn Egilsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi í dag.
Þórunn Egilsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi í dag. vísir/vilhelm

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, snýr aftur á þing í dag eftir að hafa verið í veikindaleyfi í rúmt ár vegna þriðja stigs brjóstakrabbameins sem hún greindist með í fyrra.

Hún segir það leggjast afskaplega vel í sig að snúast aftur á þing og að hún sé full tilhlökkunar. Þá hafi hún það ótrúlega gott.

„Ég er náttúrulega laus við meinið og þá getur maður ekki annað en verið þakklátur og kátur,“ segir Þórunn í samtali við Vísi.

Þórarinn Ingi Pétursson tók sæti Þórunnar á þingi þegar hún fór í leyfið á síðasta ári. Þórunn birti mynd af þeim á Facebook-síðu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í gær.

Þar segir hún að liðið ár hafi bæði verið lærdómsríkt og krefjandi. Full þakklætis fyrir góðan árangur horfir hún bjartsýn og hress til framtíðar:

Fyrir liggja krefjandi verkefni í þinginu sem ég hlakka til að takast á við með mínum góðu félögum í þingflokki Framsóknar.

Ég læt hér fylgja með mynd af okkur Grundarbóndanum þar sem við hittumst við Eyjafjörðinn á leið minni suður. Þar höfðum við ,,lyklaskipti“. Vitni voru fá en athöfnin var góð.

Hann steig inn með stuttum fyrirvara og leysti mig af með miklum sóma, fyrir það vil ég þakka.

Eins vil ég þakka Líneik Önnu og Hjálmari Boga fyrir einstakan stuðning, vináttu og samvinnu. Það er magnað að tilheyra þessu 4 manna teymi sem hefur samvinnuhugsjónina að leiðarljósi.

Takk allir fyrir góðan stuðning, hvatningu og fallegar hugsanir.

Vonandi sé ég ykkur sem flest fljótlega og heyri í ykkur,“ segir Þórunn í færslunni sem sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×