Erlent

Allt stefnir í stórsigur Clinton

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hillary Clinton gæti fagnað stórsigri í nótt.
Hillary Clinton gæti fagnað stórsigri í nótt. vísir/getty
Ef fer sem horfir mun Hillary Clinton vinna stórsigur í forkosningum demókrata í Suður-Karólínu í kvöld. Ef marka má nýjustu spár stefnir allt í að Clinton muni sigra andstæðing sinn, Bernie Sanders, með 25 prósentustiga mun þegar búið verður að telja upp úr kjörkössunum.

Staða Clinton hefur löngum verið talin sterk í suðurríkjum Bandaríkjanna, þá sérstaklega meðal svartra. Í aðdraganda kosninganna í Suður-Karólínu ýtti hún nýrri auglýsingu úr vör þar sem áhersla var lögð á að ná til þessa þjóðfélagshóps sem og annarra sem eiga erfitt uppdráttar vestanhafs.

Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum telja að þessar breytingar megi ekki síst rekja til óvæntrar hylli sem mótframbjóðendi hennar hefur notið í forkosningum annarra ríkja.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um forkosningarnar í Bandaríkjunum

Beri Clinton sigur úr býtum í nótt mun það renna sterkari stoðum undir framboð hennar og slá á óttann sem grasseraði í herbúðum hennar í kjölfar tapsins í New Hampshire á dögunum. Þá yrði sigurinn einnig til marks um að Clinton höfði til fjölbreyttari kjósendahóps en Sanders, sem sækir fylgi sitt helst til ungs, hvíts fólks.

Þá yrði það einnig gott veganesti fyrir kosningarnar sem fara fram á Ofurþriðjudeginum svokallaða í suðurríkjunum Alabama, Georgíu, Arkansas, Virginu og Tennessee.

Hún á að sama skapi harma að hefna eftir að hafa beðið ósigur gegn Barack Obama í Suður-Karólínu í forkosningum demókrata árið 2008.

Kjörstaðir í Suður-Karólínu loka á miðnætti að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Trump og Sanders rúlluðu upp New Hampshire

Repúblikaninn Donald Trump og Demókratinn Bernie Sanders unnu báðir stórsigra í forvölum flokka sinna í New Hampshire í nótt. Sanders fékk um sextíu prósent atkvæða í ríkinu á meðan Hillary Clinton fékk um fjörutíu prósent og Trump er langt á undan hinum frambjóðendunum hjá Repúblikönum með 35 prósent atkvæða.

Ungar konur styðja Sanders

Það eru fleiri hlutir en kyn sem valda því að ungar konur styðja frekar Bernie Sanders en Hillary Clinton í baráttu demókrata. Þær virðast trúa að Sanders muni knýja fram breytingar sem Clinton sé ófær um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×