Átta marka sveifla hjá Leeds er Totten­ham skaust í þriðja sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tottenham menn fagna í kvöld. Þeir höfðu ekki unnið í síðustu fjórum leikjum.
Tottenham menn fagna í kvöld. Þeir höfðu ekki unnið í síðustu fjórum leikjum. Andy Rain/Getty

Tottenham er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti, eftir að liðið vann 3-0 sigur á nýliðum Leeds á heimavelli sínum í Lundúnum í dag.

Leeds hafði unnið síðustu tvo leiki, þar á meðal gegn WBA í síðustu umferð 0-5, en Tottnham spilaði ekki í vikunni eftir að leik þeirra gegn Fulham var frestað vegna kórónuveirusmits.

Tottenham komst yfir með marki Harry Kane úr vítaspyrnu á 29. mínútu. Ezgjan Alioski braut á Steven Bergwijn eftir að markvörður Leeds, Illan Meslier, hafði átt hörmulega sendingu frá marki sínu.

Tveimur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks tvöfölduðu heimamenn forystuna. Heung-Min Son skoraði þá enn eitt markið og stoðsendingin var ekki úr óvæntri átt; Harry Kane.

2-0 í hálfleik og staðan versnaði enn fyrir Leeds á fimmtu mínútu síðari hálfleiks er Toby Alderweireld kom Tottenham í 3-0 með skallamarki eftir hornspyrnu Heung-Min Son.

Leeds var meira með boltann en náðu ekki að skora. Tottenham fékk einnig sín færi í síðari hálfleiknum til að bæta við en ekki urðu mörkin fleiri. Matt Doherty krækti sér í annað gula spjald sitt á 92. mínútu og þar með rautt en það skipti engu og lokatölur 3-0.

Tottenham er eins og áður segir í þriðja sætinu með 29 stig en Leeds er í ellefta sætinu með 23 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira