Innlent

Ógnaði manni með skærum í Kópavogi

Sylvía Hall skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í gær og í nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast í gær og í nótt. Vísir/Vilhelm

Alls voru níutíu mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 síðdegis í gær til klukkan fimm í nótt. Sex voru jafnframt vistaðir í fangaklefum samkvæmt dagbók lögreglu.

Lögregla var kölluð til eftir að maður í annarlegu ástandi hafði gert tilraun til þess að ræna fjármunum af öðrum manni í Kópavogi. Voru skæri notuð til þess að ógna viðkomandi, en hann náði að forða sér á hlaupum og hringja í lögreglu. Gerandi í málinu var handtekinn.

Þrír voru handteknir í Hafnarfirði vegna innbrots og þjófnaðar. Talsvert magn af þýfi fannst í fórum þeirra og var það haldlagt. Allir voru vistaðir í fangaklefum vegna málsins. Þá voru tveir handteknir og vistaðir í fangaklefum lögreglu í nótt eftir að hafa verið stöðvaðir á stolnum bíl í Kópavogi.

Árekstur var vegna hálku á Hafnarfjarðarvegi. Engin slys urðu á fólki, en skömmu síðar varð annað umferðaróhapp skammt frá þeim slysstað þar sem ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á vegrið. Sá slapp einnig ómeiddur en bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn.

Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna flugelda víðs vegar um borgina, en lögregla var meðal annars kölluð til vegna elds í ruslagámi við Stýrimannaskólann. Er talið að flugeldur hafi verið notaður til þess að kveikja eldinn.

Alls voru átta ökumenn stöðvaðir vegna ölvunar eða fíkniefnaaksturs samkvæmt dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×