Nýja fjölnota íþróttahúsið, sem er í byggingu á íþróttavallasvæðinu er hugsað fyrst og fremst sem frjálsíþróttahús og knattspyrnuhús, auk þess sem göngu og hlaupahópar geta komist inn í húsið.
„Það verður líka hægt að nota það undir sýninga og tónleikahald og ýmis góð not fyrir það sem mun nýtasta fyrir okkur íbúana. Og þetta er stærðarinnar hús? Þetta er stórt hús, þetta er 6.500 fermetra hús með lofthæð upp á sextán metra,“ segir Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi úr meirihlutanum í Árborg.

Tómas Ellert segir húsið vera fyrsta áfanga í stórhuga uppbyggingu á íþróttasvæðinu fyrir Ungmennafélag Selfoss. Það sé líka möguleiki á stækka nýja húsið þannig að það verði full stærð á fótboltavelli þar inni.
„Svo kemur fyrir framan húsið búningsaðstaða, handboltahús, fimleikahús, skrifstofuhús og önnur aðstaða fyrir ungmennafélagið.“

Nýja húsið mun kosta um 1,3 milljarð króna samkvæmt fjárhagsáætlun þess.
Eins og gefur að skilja eru allir mjög spenntir fyrir opnun nýja hússins.
„Já, það er gríðarleg tilhlökkun hjá fólki. Margir áttu bágt með að trúa því að við værum að fara að byggja þetta hús en svo þegar það sá það rísa og stálbogarnir að komast á sinn stað þá fóru menn að trúa,“ segir Tómas Ellert.
