Erlent

Óttast „falskt á­hyggju­leysi“ vegna bólu­efnis

Sylvía Hall skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Kirsty Wigglesworth

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir þjóðina vera á hættulegum tímapunkti í faraldrinum. Smitum fer ört fjölgandi en bólusetningar hófust í desember síðastliðnum. Johnson óttast að fólk sé kærulausara vegna þessa.

Yfirmaður heilbrigðismála þar í landi hefur varað við því að næstu vikur verði þær verstu frá því að faraldurinn hófst fyrir heilbrigðiskerfið. Fólk hefur verið hvatt til þess að haga sér eins og það sé smitað af veirunni og takmarka samneyti sitt við annað fólk eins og það getur.

Bretar ætla að setja aukinn kraft í bólusetningar þar í landi í vikunni og í dag opna sjö bólusetningamiðstöðvar víðs vegar um landið sem geta tekið á móti miklum fjölda fólks.

„Þetta er mjög hættulegur tími því það skynja allir að bóluefnið er komið. Mínar áhyggjur eru að þetta skapi falskt áhyggjuleysi,“ sagði Johnson við fréttamenn í dag. Hann segir þó bólusetningar hafa gengið vel, 400 þúsund hafi nú þegar fengið báða skammta af bóluefninu og um það bil 40 prósent fólks yfir áttrætt.

Frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í Bretlandi hafa rúmlega áttatíu þúsund látist af völdum veirunnar en aðeins fjögur önnur lönd hafa skráð fleiri dauðsföll; Bandaríkin, Brasilía, Indland og Mexíkó.

Undanfarnar vikur hafa um þúsund manns látist á hverjum sólarhring og hefur nýtt afbrigði kórónuveirunnar leitt til þess að fjöldi daglegra smita hefur aukist til muna. Síðastliðin mánuð hafa allt að sextíu þúsund greinst með veiruna daglega.


Tengdar fréttir

Yfir átta­tíu þúsund hafa látist í Bret­landi

Frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í Bretlandi hafa rúmlega áttatíu þúsund látist af völdum veirunnar. Undanfarnar vikur hafa um þúsund manns látist á hverjum sólarhring, en faraldurinn hefur verið í miklum vexti í landinu.

Búið að bólusetja Elísabetu og Filippus

Elísabet II Bretadrottning og Filippus prins, hertogi af Edinborg voru í dag bólusett við Covid-19. Bættast hjónin þar með í hóp um 1,5 milljón Breta sem hafa allavega fengið fyrri skammtinn af bóluefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×