Handbolti

Flugu með mótherjunum á HM og fóru beint í próf

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson hitamældur við komuna á hótelið glæsilega sem sjá má til hliðar.
Bjarki Már Elísson hitamældur við komuna á hótelið glæsilega sem sjá má til hliðar. Twitter/@egypt2021en

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er mætt á heimsmeistaramótið í Egyptalandi þar sem það spilar sinn fyrsta leik á fimmtudagskvöld gegn Portúgal.

Íslendingar hafa á síðustu viku spilað tvo leiki við Portúgal í undankeppni EM og eftir seinni leik liðanna, á Ásvöllum á sunnudag, ferðuðust andstæðingarnir saman til Kaíró í gær. Flogið var með viðkomu í Kaupmannahöfn og samkvæmt ferðasögu á handbolti.is var hópurinn lentur um kl. 20 að staðartíma, eða kl. 18 að íslenskum tíma.

Við komuna á liðshótel sitt voru bæði íslensku leikmennirnir og þeir portúgölsku allir hitamældir og drifnir í smitpróf vegna kórónuveirunnar. Twitter-síða mótsins birti myndskeið af því sem sjá má hér að ofan. Reynist öll sýni neikvæð geta strákarnir okkar svo farið í lokaundirbúning fyrir HM með æfingum og liðsfundum í dag og á morgun.

Landsliðið dvelur næstu daga, og vonandi sem lengst, á hinu glæsilega Hotel Al Masah Royal Palace í nágrenni Kaíró. Liðið leikur við Portúgal á fimmtudag, Alsír á laugardag og Marokkó næsta mánudag, en allir leikirnir hefjast kl. 19.30 að íslenskum tíma.

Ísland verður svo vonandi eitt þriggja liða úr riðlinum sem kemst áfram í milliriðil og spilar 20., 22. og 24. janúar. Tvö efstu liðin úr milliriðli komast áfram í 8-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×