„Eins og þið vitið þá er ég ekki handlangari lengur, ég er orðinn handhafi. Þetta gekk allt saman rosalega vel,“ segir Guðmundur Felix í stuttri kveðju sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Hann kveðst ekki mega sýna afraksturinn strax heldur þurfi að fylgja ákveðnum reglum.
„En það verður blaðamannafundur í næstu viku. Mig langaði að þakka öllum fyrir. Það hafa verið rosalega mikið af kveðjum og heillaóskum. Þannig að ég þakka kærlega fyrir allan stuðninginn,“ segir Guðmundur Felix. Og bætir að lokum við „merci beaucoup“, eða takk fyrir, upp á frönsku.
Guðmundur var aðeins 26 ára þegar hann missti báða handleggi. Hann starfaði þá sem rafvirki og hafði verið að vinna við háspennulínu skammt frá Hafravatni þegar hann varð fyrir raflosti og slasaðist lífshættulega. Hann hefur verið opinskár um slysið í gegnum tíðina og hafði verið á biðlista eftir aðgerð í fimm ár.
Draumurinn rættist svo loks þegar hann fór í fimmtán klukkustunda aðgerð í Lyon í Frakklandi 13. janúar, nánast sléttum 23 árum eftir slysið sem varð þann 12. janúar 1998.