Innlent

Kol­beinn vill leiða lista Vinstri grænna í Suður­kjör­dæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur setið á þingi frá árinu 2016.
Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur setið á þingi frá árinu 2016. Vísir/Vilhelm

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í forvali flokksins sem sé framundan.

Kolbeinn hefur setið á þingi frá árinu 2016 fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Ari Trausti Guðmundsson leiddi lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi í síðustu þingkosningum, en hann hefur þegar tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs.

Athygli vakti að Kolbeinn fjárfesti í íbúð á Siglufirði fyrr í vetur og sköpuðust í kjölfarið nokkrar umræður um hvort hann hygðist sækjast eftir sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Nú má hins vegar ljóst vera að svo sé ekki.

Í tilkynningunni segir Kolbeinn að eftir að hafa verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, stefni hugurinn nú í Suðurkjördæmi. Kolbeinn var efstur á lista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar 2003, en framboðið þá skilaði ekki þingsæti.

Kolbeinn segir að í Suðurkjördæmi liggi ættir hans, fyrst og fremst í uppsveitum Árnessýslu. Hafi hann átt ófáar stundir í Þjórsárdal þar sem ætt hans hefur búið í um eina og hálfa öld, fyrst hjá ömmu og afa og síðan í sumarbústað fjölskyldunnar. Þá segir hann ekki skemma fyrir að vera barnabarnabarn Gests á Hæli þegar kíkt sé í Skaftholtsréttir.

„Ég tel gríðarlega mikilvægt að stórt landsvæði eins og undir er í Suðurkjördæmi eigi fulltrúa Vinstri grænna á þingi. Ari Trausti Guðmundsson hefur gegnt því hlutverki af sóma og það væri mér heiður að fá að halda áfram því góða starfi. Ég vil leggja mitt af mörkum til að Vinstri græn hljóti sem besta kosningu í haust,“ segir Kolbeinn í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×