Þannig hefjast Staksteinar Morgunblaðsins á þessum sögulega degi þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti yfirgefur Hvíta húsið. Dálkurinn, sem ýmsir telja að lýsi því best hvernig viðri hjá blaðinu og ritstjóranum Davíð Oddssyni, kallast á við skopmynd blaðsins. Sem sýnir Donald í líki Denna dæmalausa hlaupa hlæjandi í burtu frá þinghúsinu þar sem allt stendur í ljósum logum, og óeirðalögregla reynir að hafa hemil á mótmælendum.
Zuckerberg „algerlega ógeðslegur náungi“
Í leiðaraskrifum blaðsins, þar sem oftar en ekki hefur verið borið blak að Trump, nokkuð sem er fátítt í öðrum vestrænum leiðaraskrifum, er fjallað um gagnrýni á tæknirisana. Sagt að ekki sé ólíklegt að Biden sé Twitter þakklátur fyrir að hafa þaggað niður í forvera hans en það kunni að reynast skammgóður vermir. Áður er vitnað til orða hagfræðingsins Nouriel Roubini í Der Spiegel.
„Þar til nýlega aflaði Facebook fjár með sölu pólitískra auglýsinga og nú, við lok kjörtímabils Trumps, grípa þeir til aðgerða gegn honum. Mark Zuckerberg, framkvæmdastjóri Facebook, hugsar bara um peninga, hann er algerlega ógeðslegur náungi. Twitter og hinir samfélagsmiðlarnir eru slæmir, Facebook er verri.“
Þessi kínverska Wuhan-veira
Það er svo í Staksteinum sem ritstjórinn veifar til Trump í kveðjuskyni. Með sínum hætti. Það gerir Davíð með því að vitna í Moggabloggarann Gunnar sem talar um um „kínversku Wuhan-veiruna“ sem Trump vildi kalla svo en ýmsum þótti óviðeigandi, svo mjög að það þótti tabú að kenna veiruna við Kína. Á flestum bæjum öðrum en á Morgunblaðinu. Stjórnmálaskýrendur vilja meina að kórónuveiran hafi orðið Trump að falli.
„Ýmsir segja gagnslítið að grímubúast sem veiruvörn,“ segir Staksteinahöfundur í lok pistils síns. Þeir sem þekkja stílbrögð og gamansemi Davíðs, sem fagnaði 73 ára afmæli sínu í vikunni, þurfa ekki að velkjast í vafa um hver heldur um penna: „Staksteinum er ljóst að þeir gera lítið prívat og persónulega til að tryggja sig og aðra á veirutíð og setja því upp maska við öll tækifæri. Það skaðar ekki og bætir að auki útlitið í þeirra tilviki.“