Erlent

ISIS lýsir yfir á­byrgð á á­rásinni í Bagdad

Atli Ísleifsson skrifar
Látnum fylgt til grafar í Bagdad í morgun.
Látnum fylgt til grafar í Bagdad í morgun. Getty/Murtadha Al-Sudani

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa sagst bera ábyrgð á árásinni á markað á Tayaran-torgi í íröksku höfuðborginni Bagdad í gær þar sem tveir menn sprengdu sjálfa sig í loft upp. Að minnsta kosti 32 létu lífið í árásinni og á annað hundrað særðist.

BBC segir frá því að á áróðurssíðu ISIS komi fram að árásin hafi átt að beinast að sjíamúslimum. Árásin var sú mannskæðasta í Bagdad í um þrjú ár.

Sjálfsvígssprengumennirnir fóru báðir inn í mannmergð á fatamarkaði á Tayaran-torgi í vesturhluta borgarinnar þar sem þeir sprengdu sjálfa sig í loft upp.

Sjálfsvígssprenguárásum hefur fækkað mikið í Bagdad síðustu ár eftir að vopnaðar sveitir ISIS voru brotnar á bak aftur í lok árs 2017. ISIS réð um tíma yfir um 88 þúsund ferkílómetra svæði í heimshlutanum sem náði meðal annars yfir austurhluta Íraks og vesturhluta Sýrlands.

Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í ágúst síðastliðinn að enn væru um 10 þúsund ISIS-liðar enn virkir í bæði Írak og Sýrlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×