Sigurður sagði að þær sex samvinnuframkvæmdir sem komi fram í samgöngusáttmálanum séu verkefni á annað hundrað milljarða og þau fari af stað á þessu ári.
„Fyrstu verkefnin eru ekki í þessari stærðargráðu. Hornafjarðarfljót og vegur yfir Öxi. Síðan týnast fleiri til Ölfusárbrú og vegur um Mýrdal,“ sagði Sigurður.
Hann sagði stóra verkefnið svo vera Sundabraut. Hann ætti von á skýrslu í næstu viku, sem hann ætlar að kynna þá, þar sem fram á að koma skýr lína um hvernig sú framkvæmd geti átt sér stað.
„Það er samvinnuverkefni. Það eru tugir milljarða sem myndu liggja þar undir og ég vona svo sannarlega að það innlenda fjármagn sem til er muni horfa til þessara verkefna og koma þeim þannig í vinnu. Það er klárlega hluti af þessu.“
Sigurður sagðist sammála því að það gæti verið snjallt að fá lífeyrrissjóðina til að taka þátt í innviðauppbyggingu og því hefði hann reynt það í þeim málaflokki sem hann stýrir. Kallaði hann það „annarskonar fjármögnun á framkvæmdum“.
„Það er búið að tala um þetta lengi en ég ákvað að reyna að gera þetta og hafði sem betur fer stuðning til þess á Alþingi,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann sagði hugmyndina um Sundabraut búna að vera í tómu basli í tíu tuttugu ár, í bréfaskriftum milli ríkis og borgar.
„Ég ákvað að taka það bara úr þeim farvegi og setjast niður með fólki og segja: Finnum leið. Finnum lausn“ og hún er að koma. Hann sagði lausnina koma vel út bæði umhverfis- og fjárhagslega.