Til þessa höfðu engin börn eða ungmenni látist af völdum faraldursins í Danmörku og hefur enginn í aldurshópunum 10 til 19 ára eða 20 til 29 ára látist af völdum covid-19.
Foreldrar þurfa ekki að óttast að senda börn sín aftur í skólann að sögn yfirlæknis sem haft er eftir í frétt TV2. Í gær greindu stjórnvöld frá því að frá og með næsta mánudegi fái yngstu börn grunnskóla aftur að fara í skólann en öll grunnskólabörn hafa þurft að vera heima í fjarkennslu frá því fyrir jól.
Klaus Birkelund Johansen, yfirlæknir á barna- og unglingadeild Háskólasjúkrahússins í Árósum, segir að foreldrar ungbarna þurfi ekki að óttast í kjölfar frétta af fyrsta andláti ungs barns í landinu. Það sé „virkilega sjaldgæft“ á heimsvísu að ung börn deyi af völdum veirunnar.
„Öll börn sem hafa látist af kórónuveirunni í heiminum eru alvarlega veik fyrir,“ segir Johansen. „En jafnvel meðal mjög veikra barna er mjög mjög sjaldgæft að þau deyi.“
Þeim sem greinast smitaðir af kórónuveirunni á degi hverjum hefur farið fækkandi undanfarna daga. Aftur á móti hefur æ hærra hlutfall þeirra sem greinast jákvæðir reynst vera með hið svokallaða breska afbrigði veirunnar. 397 greindust með veiruna í gær en alls hafa hátt í 200 þúsund greinst með veiruna í Danmörku og staðfest hafa verið 2.160 dauðsföll. Langflestir hinna látnu voru sjötíu ára eða eldri. Aðeins tíu hinna látnu voru fimmtíu ára eða yngri.