Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Grótta breytti stöðunni úr 3-3 í 8-3. Eyjamenn voru þó búnir að jafna muninn fyrir hlé en Grótta náði aftur tveggja marka forystu fyrir hlé.
Gestirnir héldu vel á spilunum í síðari hálfleik og náðu mest fjögurra marka forystu. Eyjamenn voru þó ekki hættir og náðu að jafna. Gróttumenn klúðruðu víti, er staðan var jöfn, er mínúta var eftir.
ÍBV hélt í sókn og Ásgeir Snær Vignisson skoraði og kom Eyjamönnum í 32-31. Andri Þór Helgason náði þó að jafna metin úr vítakasti áður en yfir lauk og lokatölur 32-32.
Kári Kristján Kristjánsson var magnaður í liði ÍBV. Hann gerði tíu mörk en næstur kom Ásgeir Snær Vignisson með sex mörk. Í liði Gróttu var Birgir Steinn Jónsson markahæstur með átta mörk en Andri Þór Helgason sjö.