Sóttvarnalæknir sagðist einnig vera að skoða hvernig mætti bregðast betur við á landamærunum en sagði traustan lagagrundvöll fyrsta skrefið. Skoraði hann á Alþingi að sjá til þess að breytingar á sóttvarnalögum yrðu kláraðar hið fyrsta.
Spurður sagði Þórólfur að það væri til skoðunar að krefjast neikvæðra niðurstaða við komu eins og tuttugu aðrar Evrópuþjóðir hefðu gert. Þá væri til athugunar að skylda þá sem ekki hafa fast aðsetur hér á landi að dvelja í sóttkví í farsóttarhúsi.
Gefa rangar upplýsingar á landamærunum
Þórólfur sagði að vel hefði gengið að halda faraldrinum niðri innanlands en ljóst væri að ekki væri búið að uppræta veiruna í samfélaginu. Því þyrfti að fara varlega áfram, þar til tekist hefði að bólusetja einhvern fjölda.
Hann nefndi hins vegar að 28 hefðu greinst smitaðir á landamærunum og þar af helmingur með virkt smit og að þrátt fyrir árangursríkt fyrirkomulag þar væri alltaf ákveðin áhætta á því að smit bærist inn í landið.
Þá væru vísbendingar um að fólk væri að gefa upp rangar upplýsingar við komuna til landsins, til dæmis símanúmer og aðsetur.
Þórólfur sagði að þrátt fyrir allt væru takmarkanir á landamærunum hér með þeim minnst íþyngjandi í Evrópu og því mætti gera ráð fyrir auknum fjölda sem vildi koma hingað, sem myndi valda auknu álagi.
Í skoðun væri hvernig mætti bregðast við þessu, sagði hann, og nefndi svo í kjölfarið þá möguleika sem eru nefndir hér að ofan.