John Snorri gengur ásamt feðgunum Ali Sadpara og Sajid Sadpara auk JP Mohr frá Chile, en þeir hafa stefnt að því að ná tindi K2 að vetrarlagi. Slík för þykir afar hættuleg en fjallið er 8.611 metrar, næsthæsta fjall heims. Sajid sneri þó við á lokasprettinum þegar súrefniskútur hans hætti að virka.
Engar fregnir hafa þó borist af hópnum síðan þeir sáust síðast á föstudagsmorgun.
„Okkur þykir miður að greina frá því að við höfum ekki fengið neinar fréttir af John, Ali og Pablo eftir nóttina. Eina sem við vitum er að Sajid Ali er öruggur á leið niður úr þriðju búðum,“ segir í færslu á Facebook-síðu Johns Snorra.
Þar er pakistanska hernum þakkað fyrir viðbrögð sín sem og utanríkisráðuneytinu hér á landi.
„Takk fyrir stuðninginn, við höldum í trúna.“
Sjerpar fluttir á fjallið til leitar
Fram kom á Instagram-síðu John Snorra í gærmorgun að fjórmenningarnir hefðu verið á göngu í tólf og hálfan tíma. Áætlaði hann að það tæki fimmtán til sextán klukkustundir að komast á toppinn. Ískalt er í efstu hæðum K2 þar sem frostið er um 40 gráður og enn kaldara með vindáhrifum.
Hægt hefur verið að fylgjast með John Snorra á göngu í gegnum Garmin-búnað og þannig staðsetja hann í fjallinu. Rafhlaðan kláraðist í kuldanum í hlíðum K2 og því ekki verið hægt að fylgjast með þar síðan.

Fjallgöngumaðurinn og tindaþjálfarinn Alan Arnette hefur fylgst með stöðu mála á bloggsíðu sinni. Í nýrri færslu greinir hann frá fyrirhugaðri leit hersins, en við leitina verða sjerpar, sem hafa séð um leiðsögn fyrir göngumenn um áratugaskeið, fluttir með þyrlum ofarlega á fjallið.
„Það er óvíst hversu hátt þyrlurnar komast þegar vindurinn nær rúmlega þrettán metrum á sekúndu í tuttugu þúsund feta hæð,“ skrifar Arnette, sem býst ekki við frekari upplýsingum fyrr en eftir nokkrar klukkustundir. „Mögulega ekki fyrr en seint á laugardag eða jafnvel á sunnudag.“
Fjallgöngumaðurinn Muhammad Ali segir björgunaraðila búa sig undir mögulegar björgunaraðgerðir. Enn sé beðið eftir fregnum af göngumönnunum.
Update: #k2winterexpedition2021
— Muhammad Ali Sadpara (@ali_sadpara) February 6, 2021
We are still waiting for Ali, John Snorri and JP Mohr to get in contact. While precautionary measures are being undertaken in case of a rescue being necessary. Last communication b/w sajid and base camp was at 01:00am and 04:00am. Prayers
Rao Ahmad