Víðtæk leit að fjallgöngumönnunum John Snorra Sigurjónssyni, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á fjallinu K2 hefur enn engan árangur borið.
Pakistanski miðillinn Arynews greinir frá.
Þeir félagar lögðu af stað upp K2 ásamt syni Ali, Sajid Sapara, á fimmtudagskvöldið. Strax um nóttina lenti Sajid í vanda og snéri við. Þegar hann sá þremenningana síðast um klukkan fimm aðfaranótt föstudagsins voru þeir við flöskuháls í um 8.200 metra hæð en fjallið er 8.611 metra hátt.
Pakistanski herinn hefur stýrt umfangsmikilli leit á svæðinu í gær og í dag. Þyrlur hafa verið nýttar við leitina. Þá hafa gervihnattarmyndir verið notaðar til að reyna að finna John Snorra og félaga.