Umfjöllun: Afturelding - FH 27-33 | FH aftur á beinu brautina

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020
Afturelding - Selfoss Olís deild hsí íslandsmót karla, sumar 2020 Foto: Hulda Margrét Óladóttir

FH fór með sigur af hólmi gegn Aftureldingu í loka leik 8. Umferðar í Olís deild karla í kvöld 27-33. Jafnt var á tölum framan og aðeins eitt mark skyldi liðin að í hálfleik, 16-17, FH í vil.

Bæði lið hófu leikinn af krafti en heimamenn ívið sterkari og héldu gestunum einu til tveimur mörkum frá sér framan af. FH náði svo forystunni áður en flautað var til hálfleiks en munurinn aðeins eitt mark, 16-17, hálfleikstölur í Varmá.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af góðum sóknarleik eins og tölurnar gáfu til kynna þá var mikið skorað. FH átti í erfiðleikum varnarlega og fengu enga markvörslu í kjölfarið, Phil Döhler var aðeins með eitt skot varið í hálfleik.

Sóknarlega svöruðu þeir fyrir sig, Einar Rafn Eiðsson byrjaði leikinn virkilega vel og var kominn með fimm mörk í fyrri hálfleik á meðan Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fór fyrir sínu liði framan af.

Það voru svo gestirnir sem mættu beittari til leiks í síðari hálfleik og náðu öllum tökum á þessum leik. Döhler átti tvöfalda markvörslu á fyrstu mínútum síðari hálfleiks og við það datt hann í gang og stemningin varð gestanna sem komust í fimm marka forystu þegar rétt um 10 mínútur voru til leiks loka, 22-27.

Afturelding náði ekki að vinna sig inn í leikinn á ný og FH vann að lokum öruggan 6 marka sigur, 27-33

Af hverju vann FH?

Gestirnir voru sterkari í síðari hálfleik, þeir urðu sterkari á öllum vígstöðvum, Einar Rafn var frábær sóknarlega, Döhler fór að verja og við það slökktu þeir í heimamönnum sóknarlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Saman voru þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Blær Hinriksson frábærir í liði Mosfellinga bæði varnar og sóknarlega. Þorsteinn Leó endaði með 8 mörk og var ásamt því atkvæðamestur varnarlega einnig.

Nafnarnir, Einar Rafn Eiðsson og Einar Örn Sindrason, báru af í liði FH. Einar Rafn markahæstur með 9 mörk.

Hvað gekk illa?

FH fékk enga markvörslu framan af leik sem gerði það að verkum að leikurinn var jafn lengst af en um leið og Döhler fór að verja einhverja bolta í síðari hálfleik tóku FH-ingar forystuna í leiknum.

Sóknarlega fóru heimamenn að ströggla þegar líða tók á leikinn og vantaði þeim smá reynslu til að stíga upp og klára leikinn.

Hvað er framundan?

Í næstu umferð er risa leikur, FH Haukar í Kaplakrika, einn af stærstu leikjum tímabilsins, mánudaginn 15. febrúar. Á sunnudeginum mætir Afturelding ÍR í Breiðholtinu en fyrst er það frestaður leikur frá 5. Umferð, Afturelding Stjarnan á fimmtudaginn kemur.

Sigursteinn var ánægður með sína menn í kvöldvísir/vilhelm

Sigursteinn: Miðað við að Einar Rafn sé 50 kg með bakpoka þá er þetta nokkuð gott hjá honum

„Þetta var hörkuleikur, ef einhver hefði boðið mér 6 marka sigur fyrir leik þá hefði ég tekið því“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir 6 marka sigurinn á Aftureldingu.

Phil Döhler var aðeins með einn bolta varinn í fyrri hálfleik, Steini ákveður þó að spila honum áfram í síðari hálfleik og sá ekki eftir því að leik loknum þar sem hann hrökk í gang og var stór ástæða þess að liðið vann þennan sterka útisigur

„Phil var ekkert sá eini sem átti slakan leik í fyrri hálfleik, vörnin var arfaslök líka svo við ákváðum bara gefa þeim traustið sem byrjuðu leikinn“ sagði Steini um þá ákvörðun að gera engar breytingar á sinni uppstillingu í hálfleik

Nafnarnir í liði FH áttu frábæran leik þeir Einar Örn Sindrason og Einar Rafn Eiðsson, þetta hafði Steini um þá að segja.

„Einar Örn er búinn að vera virkilega vaxandi síðustu árin og er gríðarlegt efni. Hann er alltaf að fá fleiri og fleiri mínútur og stendur sig frábærlega“

„það vantar engan styrk í Einar Rafn, miðað við það að vera 50 kíló með bakpoka þá er þetta nokkuð gott hjá honum“ sagði Sigursteinn að lokum

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.VÍSIR/DANÍEL

Gunni Magg: Hann verður hvalreki fyrir íslenska landsliðið 

„Hann lokar bara á okkur í markinu, tekur dauðafæri og tekur rosalega mikið“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, aðspurður um muninn á liðunum í dag

„Mér fannst bara vera munurinn á liðunum. Ég var hrikalega ánægður með fyrri hálfleikinn og framan af í seinni og við getum alveg byggt á því. Ég er samt svekktur og vildi vinna þennan leik en ég er ánægður með margt hjá strákunum, þeir lögðu allt í þetta“ sagði Gunnar um leik liðsins í kvöld

Afturelding spilar mikið á ungum og efnilegum leikmönnum um þessar mundir meðan megin þorri liðsins er frá vegna meiðsla

„Þeir gerðu bara vel í dag. Við fáum svo Þránd inn í næsta leik, Monsi og Beggi koma svo inn fljótlega svo við eigum eftir að þétta okkur hægt og rólega“ sagði Gunni og talar þar um Þránd Gíslason Roth sem tók út leikbann í dag, Úlfar Páll Monsi og Bergvin Þór Gíslason eru frá vegna meiðsla.

Ungur leikmaður í liði Aftureldingar, Þorsteinn Leó Gunnarsson, var frábær í leiknum og hefur Gunnar mikla trú á honum

„Ég hafði aldrei séð hann áður þegar ég mætti hingað á mína fyrstu æfingu, ég hafði heyrt eitthvað af honum en eftir eina æfingu boðaði ég hann á fund daginn eftir og spurði tvær spurningar. Viltu fara alla leið? Hann sagði já, ertu tilbúinn að leggja á þig það sem þarf? Hann sagði já“ sagði Gunnar og hélt áfram

„Ég sagði honum að mæta á æfingu 7 morguninn eftir og hann mætti. Við höfum haft hann í bómull, hann er búinn að styrkjast mikið, bæta á sig 7-8 kílóum af vöðvum. Það sem hann er að sýna í leikjum er svona 50-60% af því sem hann er að sýna á æfingum, hann er miklu betri en þetta. Hann er ennþá stressaður, hefur bara spilað 6 leiki í efstu deild á ferlinum“

„Ef hann heldur áfram að leggja á sig aukalega næstu tvö, þrjú árin þá er þetta hvalreki fyrir íslenska landsliðið og við munum sjá þennan strák í Bundesligunni“ sagði Gunnar sem hrósaði Þorsteini Leó í hástert.

„Neinei, við tókum þá ákvörðun bara um jólin að auðvitað breyttist markmiðið. Ég nenni ekki einu sinni að telja upp hverja vantar í liðið endar skiptir það bara engu máli. Annað hvort var þetta að taka inn einhvern útlending og reyna að vera með í einhverri toppbaráttu eða ætluðum við að nota þessa efnilegu stráka sem við eigum. Þetta eru bara strákar sem við ætluðum að gefa sénsinn og höfum fulla trú á þeim“ sagði Gunnar að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira