Erlent

Hefja rannsókn á áhrifum bóluefnisins frá AstraZeneca á börn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á börn og því telja vísindamenn mikilvægt að kanna áhrif bólusetninga á aldurshópinn. Þá þekkist það að börn veikist alvarlega af völdum Covid-19.
Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á börn og því telja vísindamenn mikilvægt að kanna áhrif bólusetninga á aldurshópinn. Þá þekkist það að börn veikist alvarlega af völdum Covid-19. epa/Leszek Szymanski

Til stendur að prófa áhrif bóluefnins frá AstraZeneca á börnum í nýrri rannsókn. Þátttakendur verða 300 talsins, á aldrinum sex til sautján ára. Bólusetningar hefjast í þessum mánuði.

Að sögn Andrew Pollard, sem fer fyrir bóluefnarannsóknum AstraZeneca, er mikilvægt að komast að því hvort bólusetning getur gagnast börnum, jafnvel þótt flest börn virðist ekki veikjast alvarlega af völdum Covid-19.

Fyrr í vikunni sagði aðstoðarlandlæknir Bretlands mögulegt að fyrir árslok yrðu komin á markað Covid-19 bóluefni fyrir börn.

Royal College of Paediatrics and Child Health hefur greint frá því að vísbendingar séu um að Covid-19 geti valdið alvarlegum veikindum og dauða meðal barna. Það sé hins vegar sjaldgæft.

Þá bendi ýmislegt til þess að börn smitist síður af SARS-CoV-2, veirunni sem veldur Covid-19.

Samkvæmt University of Oxford, sem þróaði umrætt bóluefni í samvinnu við AstraZeneca, hafa rannsóknir þegar hafist á áhrifum efnisins í aldurshópnum sextán til sautján ára.

Forsvarsmenn verkefnisins segja mikilvægt að kanna áhrif bólusetninga á börn, þar sem þau hafi orðið fyrir verulegum óbeinum áhrifum af völdum faraldursins.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×