Erlent

Tók hálftíma að loka á alla fjölmiðla í lýðræðisríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Samfélagsmiðillinn Facebook lokaði í dag á deilingar á fréttaefni í Ástralíu eftir að stjórnvöld í landinu lögðu fram frumvarp sem myndi skylda Facebook og aðra tæknirisa til að greiða fyrir slíkar deilingar.

Scott Morrison forsætisráðherra fordæmdi ákvörðunina í dag og sagði hana hrokafulla. Google og Facebook hafa talað gegn frumvarpinu síðustu vikur en öfugt við Facebook komst Google að samkomulagi við stærstu miðla Ástralíu.

Vegna ákvörðunar Facebook blasti þessi sjón við Páli Þórðarsyni, prófessor við háskóla í áströlsku borginni Sidney, þegar hann reyndi að deila frétt í morgun. 

Mynd/Skjáskot

Páll segir að Facebook hafi ekki eingöngu lokað fyrir deilingar á efni frá stærstu fréttamiðlum landsins.

„Svo héldu þeir áfram en það var eins og einhver væri á hraðferð. Þeir fóru að loka á til dæmis veðurstofu Ástralíu, upplýsingasíður slökkviliðs um skógarelda, heilbrigðisstofnana, rannsóknastofnana í krabbameini, kvennaathvarf og grínfréttamiðla líka.“

Hann segir tæknirisa á borð við Facebook og Google jafnvel orðna of stóra. „Það eru umræður um það bæði í Evrópu og Bandaríkjunum um að það þurfi jafnvel að skipta þessum tæknirisum upp. Þeir séu einfaldlega orðnir of stórir. Rétt eins og bandarísk stjórnvöld gerðu í upphafi tuttugustu aldar með olíufyrirtækin sem Rockefeller og aðrir voru búnir að byggja upp.“

Að sögn Páls er þó nokkur reiði í garð Facebook meðal Ástrala og hann veltir því fyrir sér hvort ákvörðunin hafi verið vanhugsuð.

„Herforingjastjórnin sem tók völdin í Mjanmar er að nota Facebook í áróðri, mjög svæsnum áróðri, kynþáttaáróðri og alls konar ógeði. Facebook segir alltaf að þeir geti ekkert gert við þessu. En það tók þá hálftíma að loka á alla fjölmiðla í 25 milljóna manna lýðræðisríki.“


Tengdar fréttir

Facebook lokar á fréttir í Ástralíu

Samfélagsmiðlarisinn Facebook hefur lokað á þann möguleika að notendur í Ástralíu geti deilt eða skoðað fréttir í gegnum miðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×