Enski boltinn

Sögðu Liverpool í „sögulegri krísu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Svekkelsið leyndi sér ekki hjá leikmönnum Liverpool í gær.
Svekkelsið leyndi sér ekki hjá leikmönnum Liverpool í gær. Laurence Griffiths/Getty

Það eru vandræði hjá ensku meisturunum í Liverpool. Þeir hafa tapað fjórum deildarleikjum í röð á heimavelli og eru sextán stigum á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða.

Jan Mølby lék með Liverpool á árunum 1984 til 1996 við góðan orðstír. Daninn lék tæplega þrjú hundruð leiki fyrir félagið og þekkir hvern krók og kima hjá félaginu.

Hann vinnur nú sem spekingur fyrir dönsku sjónvarpsstöðina TV3Sport og hann var í beinni frá Anfield eftir tapið gegn Everton í gær.

„Ég sit fyrir framan útvarpsstöð sem sagði að Liverpool væri í sögulegri krísu,“ sagði Daninn.

„Það er að sjálfsögðu út af því að væntingarnar til þessa liðs eru svo miklar í hvert einasta skipti sem það spilar. Maður ætlast til þess að þeir vinni. Því segja menn þetta sögulega krísu.“

Margir velta nú fyrir sér hvað Liverpool þurfi að gera til þess að koma sér út úr þessum vandræðum og Martin Jørgensen, fyrrum danskur landsliðsmaður, var ekki með svarið á reiðum höndum.

„Ef ég vissi svarið gæti ég orðið ansi ríkur. Ég held að þetta sé spurning sem Jurgen Klopp spyr sjálfan sig að,“ sagði Martin og hélt áfram.

„Hann getur sagt að þeir eigi að halda áfram og gera það sem þeir hafa gert síðustu þrjú ár en leikmennirnir eru dálítið ráðvilltir inni á vellinum.“

„Þeir eru í mótvind, sem þeir hafa ekki lent í síðustu ár, þar sem þeir hafa bara unnið og unnið. Núna þurfa þeir að finna lausnir, sem þeir hafa ekki,“ bætti Martin við.


Tengdar fréttir

Gylfi elskar að spila gegn stóru liðunum

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt 65. mark í ensku úrvalsdeildinni í gær er hann skoraði annað mark Everton í 2-0 sigri á grönnunum í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×