Innlent

Málið umfangsmikið og rannsókn rétt að hefjast

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla vill ekki tjá sig um það hvort morðvopnið er fundið.
Lögregla vill ekki tjá sig um það hvort morðvopnið er fundið. Vísir/Vilhelm

Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn segir rannsókn á morðinu í Rauðagerði gríðarlega umfangsmikla og langt í land að hún klárist. Karlmaður á fimmtugsaldri var í morgun úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í tengslum við málið.

Sjö sitja nú í gæsluvarðhaldi en tólf hafa réttarstöðu grunaðra. Fréttastofa ræddi við Margeir í dag og spurði hann meðal annars að því hvort hann sæi fyrir sér að farið yrði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald þar til rannsókn lyki en hann sagði ómögulegt að segja fyrir um það.

Þá sagðist Margeir ekki getað svarað því hvort ákæra væri að vænta fyrir aðra glæpi í tengslum við morðið. Tíminn þyrfti að leiða í ljós hvort önnur mál yrðu skoðuð samhliða eða í kjölfarið. 

Hann sagði rannsóknina gríðarlega flókna og umfangsmikla en lögregla hefur verið að ræða við vitni og fara yfir gögn og yfirheyrslur. Lögregla teldi sig hafa nokkuð góða mynd af atburðarásinni en hann vildi ekki tjá sig um það hvort morðvopnið hefði fundist.

Ákærur væru ekki í augnsýn; málið væri svotil á byrjunarreit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×