Innlent

Fékk skyld­menni í heim­sókn í sótt­kvíar­bú­stað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurlandi greinir frá málinu í vikuyfirliti sínu í dag.
Lögreglan á Suðurlandi greinir frá málinu í vikuyfirliti sínu í dag. Vísir/vilhelm

Einstaklingur sem var í skimunarsóttkví í sumarbústað í umdæmi lögreglu á Suðurlandi fékk ættingja í heimsókn til sín í sóttkvína, að því er fram kemur í vikuyfirliti lögreglu á Suðurlandi sem birt var í dag.

Þar segir að sá sem var í sóttkvínni hafi skilað neikvæðu PCR-prófi við komu til landsins og skimun á landamærum einnig reynst neikvæð. Ættingjanum var samt sem áður gert að sæta sóttkví þar til niðurstaða seinni skimunar gestgjafans liggur fyrir. Málið var sent ákærusviði til meðferðar.

Þá urðu tvö umferðaróhöpp með skömmu millibili á Suðurlandsvegi skammt frá Litlu kaffistofunni í síðustu viku. Í fyrra óhappinu fauk kerra aftan á bifreið þannig að bifreiðin lenti á vegriði.

Þegar lögreglumenn voru við störf á vettvangi urðu þeir þess varir að bifreið var ekið aftan á aðra á leið þeirra niður hina svokölluðu Draugahlíðarbrekku.

„Ekki urðu slys á fólki en flytja þurfti aftari bifreiðina á brott með dráttarbíl þar sem hún var óökufær. Ökumaður bifreiðarinnar hafði innan við klukkustund fyrr verið stöðvaður fyrir hraðakstursbrot á Biskupstungnabraut þá á 120 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst,“ segir í tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×