Á ársþingi KSÍ um helgina var kosið um tvær tillögur um framtíðarfyrirkomulag efstu deildar karla, annars vegar um tillögu Fram um að fjölga liðum í efstu deild úr tólf í fjórtán og hins vegar tillögu starfshóps KSÍ um að taka upp úrslitakeppni. Hvorug tillagan fékk nægilegan fjölda atkvæða til að hljóta brautargengi.
Í samtali við Fréttablaðið segir Börkur að óbreytt fyrirkomulag sé íslenskum fótbolta ekki til heilla.
„Þetta eru mikil vonbrigði að mínu mati, því er ekki að leyna. Tillaga starfshóps KSÍ var ákveðin málamiðlun milli þeirra félaga sem eru í efstu deild og neðri deildanna. Af þeim sökum finnst mér það bagalegt að hún hafi ekki fengið brautargengi og þeim félögum sem vilja og hafa getu til að taka rökrétt skref í átt að atvinnumennsku sé haldið niðri,“ sagði Börkur.
Hann veltir fyrir sér framtíð ÍTF og segir að ef til vill væri það hagstæðara ef samtökin væru aðeins skipuð fulltrúum félaga í efstu deild, eins og var í árdaga samtakanna. ÍTF eru nú skipuð fulltrúum félaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna.
„Það kemur alveg til greina að mínu mati að fara aftur í það fyrirkomulag sem var á hagsmunasamtökunum Íslenskum toppfótbolta þegar þau voru stofnuð, það er að stofna samtök sem gæta hagsmuna félaganna í efstu deild karla. Hagsmunir og framtíðarsýn flestra félaganna sem eru með lið í efstu deild í knattspyrnu eru ekki í takt við önnur félög og við því þarf að bregðast,“ sagði Börkur.
„Það kann ekki góðri lukku að stýra né getur talist eðlilegt að félög sem eru í neðri deildum stjórni því hvernig fyrirkomulagið sé í efstu deild þvert á vilja þeirra félaga sem þar leika.“
Ummæli Barkar ríma við þá skoðun sem Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, setti fram í pistli á Fótbolta.net í síðustu viku, eftir aðalfund ÍTF.
Þar veltir Páll fyrir sér framtíð ÍTF og hvort samtökin hafi villst af leið, stækkað meira en góðu hófi gegnir.
„Þar erum við komin að kjarna málsins. Íslenskur Toppfótbolti er ekki lengur sérstakur félagsskapur liða í fremstu röð, heldur er þetta félagsskapur sem stendur opinn svo að segja öllum. Toppfótbolti þjónar ekki hagsmunum stærstu félaganna eins og lagt var upp með. Samtökin eru ekki á þeim stað sem stefnt var að, heldur hafa þau þanist út eins og sveitarfélag og gera lítið annað en enduróma starfsemi KSÍ. Íslenskur Toppfótbolti sinnir í þessu formi aðeins verktöku fyrir KSÍ,“ skrifaði Páll.