Frá þessu greint í Markaðnum í dag, þar sem viðræður um sölu eru sagðar langt á veg komnar. CVC Capital Partners leiddi hóp fjárfesta sem ásamt Temasek keypti ráðandi hlut, 69 prósent, í Alvogen árið 2015.
Í blaðinu segir að ekki hafi fengist staðfest um væntanlegan kaupanda, en að viðræður séu sagðar standa yfir við alþjóðlegan fjárfestingarsjóð.
Forstjóri og stofnandi Alvogen, Róbert Wessman, á um þrjátíu prósenta hlut í félaginu í gegnum fjárfestingafélagið Aztiq Pharma. Starfsmenn Alvogen eru um 2.800 talsins og þar af starfa um tvö hundruð á Íslandi.
Lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s breytti í síðustu viku horfum Alvogen í Bandaríkjunum úr stöðugum í neikvæðar þar sem vísað var til þess að endurfjármögnunaráhætta félagsins hefði aukist. Því væru minni líkur á að markmið um að ná skuldum undir fimmfaldri EBITDA á þessu ári muni nást, að því er segir í frétt Markaðarins.
Uppfært 11:45: Í tilkynningu frá Alvogen er því sem fram kemur í frétt Markaðarins hafnað. CVC hafi ekki hug á að selja sinn hlut. Sjá nánar hér.