Erlent

Harmar að em­bættis­fólk hafi fengið bólu­setningu fyrr en for­gangs­hópar

Sylvía Hall skrifar
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja.
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja. Mynd/Kringvarp Færeyja

Sendiherra Færeyja í London fékk ásamt maka sínum bólusetningu í lok janúar eftir að mennta- og utanríkisráðuneytið þar í landi hafði sent beiðni þess efnis til landlæknisins í lok síðasta árs. Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, segir að héðan í frá verði öllum bólusetningaráætlunum fylgt og forgangshópar virtir.

Greint var frá bólusetningunum fyrr í vikunni, en ráðuneytið hafði einnig beðið um að sendiherra Færeyja í Kína fengi bólusetningu ásamt maka sínum þar sem þau vildu ekki láta bólusetja sig í Kína. Sú beiðni var send þann 17. febrúar og tók landlæknirinn Lars Fodgaard Møller vel í þá beiðni.

Ekki var heimild fyrir bólusetningunum þar sem gildandi bólusetningaráætlun gerði ráð fyrir því að aðeins heilbrigðisstarfsfólk og aðrir framlínustarfsmenn yrðu bólusettir fyrst um sinn, sem og elstu aldurshóparnir. Þá var stefnt að því að klára að bólusetja alla í umönnunarstörfum fyrir lok apríl.

Lars Fodgaard Møller, landlæknir Færeyja, er formaður hópsins sem sér um útfærslu bólusetninga í Færeyjum.

Ráðherrann segist ekki hafa vitað af beiðninni

Jenis av Rana, utanríkis- og menntamálaráðherra Færeyja og formaður Miðflokksins þar í landi, segist ekki hafa vitað að beiðnirnar hefðu verið sendar til landlæknisins. Hann hafði fyrst heyrt af málinu í útvarpsfréttum.

Hann segist þó ekki telja að sendiherrarnir hafi endilega gert sér grein fyrir því að þeir væru að fara fram fyrir röðina. Kórónuveiran hafi verið í meiri útbreiðslu í London og Kína en í Færeyjum og það hafi sennilega verið ástæðan fyrir því að beiðnin var send.

„Í mínu huga, sem almennur borgari, læknir og ráðherra tel ég þó að það séu aðrir hópar sem þurfi meira á bólusetningu að halda en sendiherrar, því sendiherrar eru í þeirri stöðu að geta unnið heiman frá sér og líka í löndunum sem þau fara til,“ sagði Jenis í samtali við Kringvarpið.

Bárður á Steig Nielsen segir ljóst að þetta muni ekki endurtaka sig. Ráðherrar, embættismenn og aðrir opinberir starfsmenn muni þurfa að bíða eftir því að röðin komi að sér.

„Bólusetningaráætlunin var sett til að tryggja það að þeir sem þurfa bóluefnið fái bóluefnið. Ég held það efist enginn lengur um það, hvorki stjórnmálamenn né embættismenn, að áætluninni verður fylgt upp á punkt og prik,“ sagði Bárður í samtali við Kringvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×