Innlent

„Það verður al­manna­vá, dauðs­föll munu færast á annað stig“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu.
Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu. Vísir/Vilhelm

Formaður Afstöðu fagnar hröðum viðbrögðum heilbrigðisráðherra vegna ólöglegra og lífshættulegra ópíóíða. Það sé tímaspursmál hvenær efnin rati í fangelsin og um leið skapist ástand sem erfitt verði að vinna úr.

Heilbrigðisráðuneytið efndi til skyndifundar á mánudag með fulltrúum Lyfjastofnunar, Landspítala, embætti landlæknis, tollyfirvalda, lögreglunnar, Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, Afstöðu og Matthildi skaðaminnkun, um leiðir til að bregðast við innflutningi ólöglegra og lífshættulegra ópíóíða.

Greint var frá því í síðustu viku að fjórtán væru í haldi lögreglu eftir að tollverðir lögðu hald á tuttugu þúsund töflur af nitazene, stórhættulegu efni sem er um þúsund sinnum sterkara en morfín. Þá var greint frá því í gær að tvær unglingsstúlkur, fæddar 2006 og 2007, sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu - félags fanga, segir samtökin og Matthildarsamtökin hafa hist vegna málsins á sunnudag og sent ráðherra minnisblað um kvöldið. Þar hafi alvarleiki málsins verið rakin og nokkrar tillögur nefndar hvernig bregðast ætti við.

„Það sem er skrýtið er að yfirleitt byrja lyfin í fangelsunum og fara svo út í samfélagið,“ segir Guðmundur Ingi. Í þessu tilfelli hafi risaskammtur af fíkniefnum, sem ekki séu komin í fangelsin, gripin við komuna til landsins.

„Það verður almannavá, dauðsföll munu færast á annað stig,“ segir Guðmundur Ingi. Styrkleiki efnisins sé slíkur að viðbúið sé að fólki fjöldi sem látist vegna áhrifa þess.

„Svo mun þetta fara í fangelsin. Það mun enginn biðja um aðstoð eða vera í aðstöðu til að prufa efnið. Þá skapast ástand sem erfitt verður að vinna úr.“

Aðspurður hvers vegna efnin rati í fangelsin útskýrir Guðmundur Ingi að sterk efni séu vinsæl í fangelsum vegna þess að þá þurfi minni skammta. Og litlu skammtarnir endist um leið lengur.

„Eins og spice. Þú þarft að smygla svo litlu til að eiga í marga mánuði.“

Hann segir alla fundargesti á miðvikudag hafa tekið málið alvarlega. Tekið hafi verið vel í hugmyndir Afstöðu og Matthildarsamtakanna. Boltinn sé hjá ráðuneytinu en til hafi staðið að kalla til framhaldsfundar.

Vinna þurfi hratt í að finna réttu hraðprófin sem þurfi að vera til staðar hjá lögreglu, í fangelsum, heilsugæslu og skaðaminnkandi úrræðum. Þannig sé hægt að bregðast hratt við þegar grunur kviknar um notkun á efninu.

Efnið hafi enn ekki mælst í fangelsinu en heyra má á Guðmundi að það sé tímaspursmál.

„Við höfum áhyggjur af okkar fólki. Að það verði stórslys,“ segir Guðmundur. Teikna þurfi upp aðgerðaráætlun til að bjarga mannslífum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×