Erlent

Svíar stöðva einnig notkun á bólu­efni AstraZene­ca

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svíþjóðar segir að um öryggisráðstöfun sé að ræða.
Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svíþjóðar segir að um öryggisráðstöfun sé að ræða. EPA

Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð hafa ákveðið að stöðva notkun á bóluefni AstraZeneca þar til að Lyfjastofnun Evrópu hefur lokið rannsókn sinni á mögulegum aukaverkunum. Fjölmörg ríki Evrópu hafa nú þegar stöðvað notkunina, þar á meðal Ísland, eftir að fréttir bárust af því að að fólk hafi verið að fá blóðtappa í kjölfar sprautunnar.

Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svíþjóðar segir að um öryggisráðstöfun sé að ræða að því er fram kemur í frétt SVT. Hann segir heilbrigðisyfirvöld hafa góða þekkingu á efninu en að það sé engu að síður mikilvægt að stöðva notkunina þar sem Lyfjastofnun Evrópu hefur lokið sinni rannsókn.

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ætla að hittast í dag til að ræða bóluefnið.

Fjöldi sérfræðinga í bóluefnamálum hafa gagnrýnt þá ákvörðun ríkja að stöðva notkunina og segja ekkert benda til tengsla milli blóðtappa og bóluefnagjafar. Einungis sé um að ræða sama hlutfall og á öðrum hópum.

Um sautján milljónir manna hafa fengið AstraZeneca-sprautuna í Evrópu og um fjörutíu þeirra hafa fengið blóðtappa skömmu síðar.

AstraZeneca er bresk-sænskur lyfjaframleiðandi og vann að gerð bóluefnisins með Oxford-háskóla.


Tengdar fréttir

Hittast á fundi og ræða bóluefni AstraZeneca

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ætla að hittast í dag til að ræða bóluefnið frá Oxford-AstraZeneca, sem mörg Evrópuríki hafa ákveðið að hætta að nota tímabundið vegna fregna um að fólk hafi verið að fá blóðtappa í kjölfar sprautunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×