Fótbolti

Segir fáránlegt að Viðar hafi ekki verið valinn

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Kjartansson skoraði gegn Dönum á Parken síðasta haust, í Þjóðadeildinni.
Viðar Örn Kjartansson skoraði gegn Dönum á Parken síðasta haust, í Þjóðadeildinni. Getty/Gaston Szermann

Síðasta hálfa árið eða svo hafa framherjarnir fjórir í nýjasta, íslenska landsliðshópnum í fótbolta skorað samtals eitt mark fyrir sín félagslið, en Viðar Örn Kjartansson skorað fjögur.

Viðar var ekki valinn í fyrsta landsliðshóp Arnars Þórs Viðarssonar, sem tilkynntur var í gær. Í hópnum eru hins vegar þeir Kolbeinn Sigþórsson, Jón Daði Böðvarsson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Björn Bergmann Sigurðarson. Ísland á fyrir höndum leiki við Þýskaland, Armeníu og Liechtenstein dagana 25., 28. og 31. mars.

„Maðurinn er stórstjarna í Noregi“

Björn skoraði eitt mark á síðasta ári, með Lilleström í norsku 1. deildinni í september, en er nú kominn til Molde og búinn að byrja þrjá leiki í Evrópudeildinni á síðustu vikum. Hólmbert hefur lítið spilað og ekkert skorað fyrir Brescia í ítölsku B-deildinni. Jón Daði hefur skorað eitt mark í 32 leikjum í ensku B-deildinni í vetur, og Kolbeinn Sigþórsson, sem nú er orðinn leikmaður Gautaborgar, skoraði síðast mark haustið 2019.

„Mér finnst mjög sérstakt að Viðar Örn Kjartansson sé ekki í þessum landsliðshópi. Maðurinn er stórstjarna í Noregi. Hann raðar inn (mörkum),“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason í hlaðvarpsþættinum Sportið í dag. Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan eða í Bylgjuappinu. Umræðan um landsliðið er í upphafi þáttar.

Viðar skoraði níu mörk í 14 leikjum fyrir Vålerenga í fyrrahaust en hefur ekkert spilað að undanförnu enda keppnisbann í Noregi og ekki áætlað að tímabilið þar hefjist fyrr en í maí. Viðar skoraði í síðasta landsleik sem hann spilaði, í 2-1 tapinu gegn Danmörku í Þjóðadeildinni í nóvember.

Greinilega að leita að vel skilgreindum framherja

„Hvað gerðist í síðasta landsleikjahléi? Jú, skoraði hann ekki? Þetta er bara maður sem á að skora mörk. Björn Bergmann skorar engin mörk. Hann er allt öðruvísi leikmaður. Hann er mjög vinnusamur og góður í því sem hann gerir, en við þurfum að hafa menn uppi á topp. Mér finnst þetta eiginlega fáránlegt,“ sagði Ríkharð. Aðspurður hvern hann hefði tekið út úr landsliðshópnum til að koma Viðari inn svaraði hann:

„Ég hefði alltaf bara tekið Björn Bergmann út úr liðinu og sett Viðar inn.“

Þeir Henry Birgir Gunnarsson og Kjartan Atli Kjartansson voru með Rikka í þættinum. Kjartan velti upp þeirri spurningu hvort ekki hefði verið sniðugt að taka Viðar inn í hópinn þar sem hann væri ólíkur hinum framherjunum:

„Það er greinilegt að þeir (landsliðsþjálfararnir) eru að leita að vel skilgreindri framherjatýpu. Þetta eru allt sterkir strákar sem að eiga að geta haldið bolta. Þá spyr maður sig hvort það sé betra að hafa fjóra mjög líka leikmenn eða eitt „wild card“ eins og Viðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×