Óþefurinn frá vinnslustöðvunum aðeins peningalykt Ian Urbina skrifar 29. mars 2021 18:45 Gambískir sjómenn handleika afurðina. Mynd/Fábio Nascimento Kínverskar fiskimjölsvinnslur í Gambíu og ólöglegar veiðar stefna fiskistofnum þessa minnsta lands Afríku í stórhættu. Þetta sýnir rannsókn samtakanna Outlaw Ocean Project. Fimmtán þúsund manna bærinn Gunjur er á suðurströnd Gambíu, smæsta ríkis Afríku. Hvítar strendur bæjarins iða af lífi á daginn. Sjómenn stýra máluðum viðarbátum sínum að landi og koma spriklandi fiskinum til kvennanna sem þar bíða. Fiskurinn er síðan fluttur á nærliggjandi markaði í ryðguðum hjólbörum eða körfum sem konurnar bera á höfðinu. Litlir strákar spila fótbolta á meðan ferðamenn fylgjast með. Þegar kvöldið rennur upp hættir fólk að vinna og varðeldar eru kveiktir á ströndinni. Heyra má trommuslátt og menn með olíubornar bringur keppa í hefðbundinni glímu. Rólegra andrúmsloft tekur við eftir fimm mínútna göngu inn að landi. Þar er Bolong Fenyo, griðarstaður fyrir dýr. Samfélagið í Gunjur stofnaði athvarfið árið 2008 til þess að vernda um þrjá ferkílómetra af strandlengju, mýrum, sléttum og lóni. Lónið er um kílómetra langt og einhver hundruð metra að breidd. Það er heimili fjölda fugla, höfrunga, leðurblaka, krókódíla og apa. Þessi griðarstaður er afar mikilvægur fyrir heilsu vistkerfisins á svæðinu og aflar samfélaginu einnig tekna vegna þeirra ferðamanna sem þangað koma. Allt rautt og dautt Að morgni 22. maí árið 2017 vaknaði samfélagið í Gunjur við það að lónið í Bolong Fenyo var orðið blóðrautt og dauður fiskur var fljótandi á yfirborðinu. „Allt er orðið rautt og dautt,“ skrifaði blaðamaður á svæðinu. Einhverjir íbúar veltu því fyrir sér hvort þetta væri einhvers konar fyrirboði. Líklegra þykir að vatnaflær hafi litað vatnið rautt vegna breytinga á annað hvort súrefnismagni eða sýrustigi. Fljótlega í kjölfarið greindu staðarmiðlar frá því að fuglar hreiðruðu ekki lengur um sig við lónið. Hópur íbúa fyllti flöskur með vatni úr lóninu og færði eina bæjarbúanum sem gæti hugsanlega komið til aðstoðar, Ahmed Manjang. Hann er fæddur og uppalinn í Gunjur en starfar nú við örverufræði í Sádi-Arabíu. Í maí 2017 var hann í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Gunjur og safnaði eigin sýnum á svæðinu sem hann sendi til greiningar í Þýskalandi. Niðurstöðurnar voru sláandi. Tvöfalt meira var af arseniki í vatninu en talið er öruggt og fjörutíu sinnum meira magn af fosfötum og nítrötum. Næsta vor skrifaði hann umhverfismálaráðherra Gambíu bréf og sagði dauða lónsins hreint stórslys. Mengunin gæti einungis átt sér eina skýringu. Kínverska fiskvinnslan Golden Lead, sem er staðsett á jaðri griðarsvæðisins, hefði losað sig við úrgang á ólöglegan hátt. Umhverfismálayfirvöld í landinu sektuðu loks fyrirtækið um rúmar þrjár milljónir króna og lýsir Manjang sektinni sem hneykslanlega lágri. Veiðibátur skammt frá ströndum GambíuMynd/Fábio Nascimento Tækifæri til uppbyggingar Golden Lead er hluti af „Belti og braut“, hinu metnaðarfulla, hnattræna innviðaverkefni Kínverja sem ríkisstjórn landsins segir að eigi að bæta samband Kína við umheiminn, styrkja samstarf á sviði efnahagsmála og veita fátækari ríkjum tækifæri til uppbyggingar. Með verkefninu er Kína orðið stærsti erlendi fjárfestirinn í innviðaverkefnum í Afríku og er í einokunarstöðu þegar kemur að byggingu vega, leiðsla, orkuvera og hafna. Árið 2017 afskrifuðu Kínverjar fjórtán milljóna dala skuld Gambíumanna og fjárfestu fyrir 33 milljónir í landbúnaði og sjávarútvegi í landinu, meðal annars með stofnun Golden Lead og tveggja annarra fiskvinnslufyrirtækja. Íbúum Gunjur var tjáð að stofnun Golden Lead myndu fylgja störf, fiskmarkaður og nýr vegur í gegnum miðju bæjarins. Golden Lead og aðrar fiskvinnslur voru byggðar upp á methraða til þess að svara aukinni hnattrænni eftirspurn eftir fiskimjöli, þessu gyllta púðri sem fæst við að mala og elda fisk. Mjölið er flutt út til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu þar sem það er notað sem prótíngjafi í vaxandi fiskeldisiðnaði. Framleiðsla fiskimjöls hefur aukist afar hratt í Vestur-Afríku. Fimmtíu vinnslustöðvar eru á ströndum Máritaníu, Senegal, Gíneu-Bissá og Gambíu. Gríðarlegt magn af fiski þarf til framleiðslunnar og notar ein vinnslustöð í Gambíu meira en 7.500 tonn af fiski á ári. Fiskeldi vaxið fiskur um hrygg Vöxtur fiskeldisiðnaðarins hefur breytt starfsháttum sjómanna á svæðinu mjög, en flestir kasta þeir netum úr litlum viðarbátum með afllitla utanborðsmótora. Hundruð löglegra og ólöglegra erlendra báta, meðal annars risavaxnir togarar, er nú komnir inn í gambískra lögsögu og valda stórtjóni á fiskistofnum og lifnaðarháttum heimamanna. Abul Sisai seldi veiklulegan grana á Tanji-fiskmarkaðnum sumarið 2019. Flugur svifu yfir söluborðinu, reykur var í loftinu og máfar voru á sveimi í von um bita. Sisai segir að fyrir tuttugu árum hafi miðin verið svo gjöful að fólk gat jafnvel fengið hann endurgjaldslaust á mörkuðum. Nú kosti hann meira en flestir geta borgað og þarf Sisai að selja ferðalöngum glingur á kvöldin til að afla meiri tekna. „Sibijan deben,“ sagði Sisai á mandinka, einu af stóru tungumálum Gambíu. Heimamenn nota frasann, sem vísar til skugga stórra pálmatrjáa, til að lýsa áhrifum fiskimjölsútflutnings. Gróðinn fer allur til fólks fjarri miðunum. Undanfarin ár hefur verð á fiski hækkað hratt, samkvæmt Assiciation for the Promotion and Empowerment of Marine Fishers, senegölsum rannsóknarsamtökum. Helmingur Gambíumanna er fyrir neðan alþjóðleg fátæktarmörk og fiskur, einna helst af tegundinni sem heimamenn nefna bonga, stendur undir helmingi af prótínþörf þjóðarinnar. Dæla úrgangi í sjóinn Eftir að Golden Lead var sektað árið 2019 hætti fyrirtækið að demba eitruðum úrgangi beint í lónið. Þess í stað byggði það langa leiðslu undir nærliggjandi strönd og dældi úrganginum í sjóinn. Sundgarpar kvörtuðu fljótlega yfir útbrotum og dauðum fiskum, höfrungum og jafnvel hvölum skolaði á land í miklu magni. Heimamenn tendruðu ilmkerti og reykelsi í von um að losna við óþefinn frá vinnslunni og túristar báru grímur. Jojo Huang, framkvæmdastjóri vinnslunnar, sagði opinberlega að fyrirtækið fari eftir öllum reglum og dæli úrgangi ekki í sjóinn. Vinnslan hafi verið bænum til góðs, sagði hún við The Guardian. Í mars árið 2018 söfnuðust um 150 verslunareigendur, ungmenni og sjómenn saman á ströndinni með skóflur og önnur verkfæri til þess að grafa leiðslu Golden Lead upp og eyðileggja hana. Tveimur mánuðum síðar komu starfsmenn Golden Lead á ströndina, með leyfi stjórnvalda, lögðu nýja leiðslu og plöntuðu kínverska fánanum við hana. Íbúum þótti þetta til marks um nýja heimsvaldastefnu. Manjang var hneykslaður og sagði ekkert vit í þessu þegar ég heimsótti fjölskyldu hans í Gunjur. „Kínverjar flytja bonga-fiskinn okkar úr landi til að fóðra beitarfiskinn sem þeir rækta. Hann senda þeir svo aftur til Gambíu og selja okkur á hærra verði eftir að búið er að dæla í hann hormónum og sýklalyfjum,“ sagði Manjang. Enn undarlegra væri beitarfiskur sé plöntuæta sem hafi verið sérstaklega þjálfuð til þess að éta fiskimjöl. Manjang hafði samband við umhverfisverndarsinna og blaðamenn, sem og gambíska þingmenn, áður en viðskiptaráðherra landsins varaði hann við því að þessi málflutningur myndi grafa undan erlendum fjárfestingum í landinu. Dr. Bamba Banja, æðsti yfirmaður sjávarútvegsráðuneytisins, gaf lítið fyrir gagnrýn og sagði blaðamanni á svæðinu að óþefurinn frá vinnslustöðvunum væri ekki nema „peningalykt“. Frá fiskmarkaði í Gambíu.Mynd/Fábio Nascimento Tvöföld eftirspurn Eftirspurn eftir sjávarfangi í heiminum hefur tvöfaldast frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og er orðin meiri en hægt er að veiða með sjálfbærum hætti. Áttatíu prósent fiskistofna í heiminum hafa orðið fyrir stórtjóni. Í von um að snúa þróuninni við hefur fiskeldi vaxið fiskur um hrygg. Þessi hraðast vaxandi geiri matvælaframleiðslu er um 160 milljarða dala virði og skilar af sér nærri helmingi alls þess sjávarfangs sem fólk neytir. Þótt sala sjávarfangs til hótela og veitingastaða hafi snarminnkað vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið hægt að vinna tekjutapið upp vegna þess að fólk eldar meiri fisk heima. Bandaríkin flytja inn um áttatíu prósent síns sjávargangs, að mestu úr fiskeldi, og kemur bróðurparturinn frá Kínverjum sem eru stærsta fiskeldisþjóð heims. Fiskeldi hefur verið til í einhverri mynd í aldaraðir og hefur nokkra kosti sem hefðbundnar veiðar hafa ekki. Minna veiðist fyrir slysni af öðrum tegundum sem dregur úr brottkasti. Eldi á til dæmis ostrum og kræklingi lækkar svo verðið á afurðinni. Í Indlandi og víða annars staðar í Asíu er fiskeldi afar mikilvæg uppspretta starfa, sérstaklega fyrir konur. Fiskeldi gerir heildsölum auðveldara að ganga úr skugga um að þeir selji ekki afurð ólöglegra veiða eða styðji vinnuþrælkun með óbeinum hætti. Fiskeldi getur einnig leitt til minni umhverfisskaða ef ströngum reglum er fylgt. Minna er notað af ferskvatni og landi en undir flesta kvikfjárrækt og er útblástur koltvísýringsígilda á hvert kíló af afurð fjórðungur af því sem tíðkast við nautgriparækt. Gallarnir eru þó einnig til staðar. Þegar milljónum fiska er þröngvað í lítið pláss skapast mikill úrgangur. Úr verður þykkt slím á botninum sem kæfir plöntur og önnur dýr. Nitur og fosfór í vatninu aukast afar mikið og drepa þörunga og fiska og hrekja túrista á brott. Eldisfiskurinn, sem er stærri en sá villti, sleppur af og til og ógnar lífríkinu. Þrátt fyrir það er ljóst að við þurfum að reiða okkur á fiskeldi ef við ætlum að fóðra hið vaxandi mannkyn, sem enn reiðir sig á dýraprótín. Árið 2019 gaf Nature Conservancy út skýrslu þar sem hvatt var til aukins fiskeldis. Í skýrslunni sagði að fiskeldi ætti að vera orðinn stærsti hluti sjávarfangsframleiðslu fyrir árið 2050. Umhverfisverndarsinnar segja margir að hægt sé að gera fiskeldi enn sjálfbærra með hertu regluverki, betri úrvinnslu úrgangs og nýrri tækni. Þrýst hefur verið á að eldi sé frekar staðsett lengra inni í landi. Stærsta áskorunin í fiskeldi er að fóðra fiskinn. Fóðurkostnaður er um sjötíu prósent af rekstrarkostnaði fiskeldis og eina fóðrið sem er nógu ódýrt hingað til er fiskimjöl. Fiskeldisstöðvar sem framleiða vinsælt sjávarfang á borð við karfa eða lax nota oft meiri fisk í fóður en þær selja til verslana og veitingastaða. Eldistúnfiskur getur til dæmis étið allt að fimmtánfalda þyngd sína af fiskimjöli áður en hann ratar á markað. Rannsakendur hafa komið auga á mögulega valkosti aðra en fiskimjöl, til dæmis mannlegan úrgang, þang og lirfur en peningahliðin gengur ekki upp enn sem komið er. Þetta veldur erfiðri þversögn. Sjávarútvegur reynir að stunda hægja á ofnýtingu sjávarafurða en með því að rækta þann fisk sem við borðum helst í fiskeldu erum við að veiða meira af öðrum fiski. Gambía flytur meginþorra síns fiskimjöls til Kína og Noregs þar sem það er notað til að framleiða ódýran lax fyrir Evrópu- og Ameríkumarkað en á sama tíma er fiskurinn sem Gambíumenn borða sjálfir að hverfa. Gambískir þingmenn söfnuðust saman á árlegan fund í september 2019 þar sem James Gomez sjávarútvegsráðherra fullyrti að gambískur sjávarútvegur væri í miklum blóma. Sjávarútvegur er stærsti atvinnuvegur landsins. Þegar þingmaður spurði út í gagnrýni á fiskimjölsvinnslurnar þrjár og út í ofveiðar á bonga-fiski vildi Gomez litlu svara. „Þetta eru alfarið sjálfbærar veiðar,“ sagði Gomez og bætti því við að nóg væri af fiski til að starfrækja tvær vinnslur til viðbótar. Erfitt að meta stöðuna Jafnvel undir bestu hugsanlegu kringumstæðum er erfitt að leggja mat á stöðu fiskistofna. Rannsakendur segja að það að telja fisk sé eins og að telja tré, nema þeir séu að mestu ósýnilegir og á stöðugri hreyfingu. Ad Corten, hollenskur líffræðingur, sagði mér að verkefnið sé enn þyngra í Vestur-Afríku þar sem stjórnvöld hafi ekki nægt fjármagn til þess að gera rannsóknir sem þessar. Einu áreiðanlegu rannsóknirnar á fiskistofnum á svæðinu snúa að Máritaníu og samkvæmt Corten sýna þær að fiskimjölsvinnslan hafi bitnað svakalega á stofnunum. „Staðan í Gambíu er alverst,“ sagði Corten og tók fram að sjávarútvegsráðuneyti landsins haldi varla skrár yfir það hversu mikið er veitt með löglegum hætti, hvað þá ólöglegum. Eftir því sem fiskistofnar hafa dvínað hafa auðugri ríki aukið eftirlit, meðal annars með aukinni gæslu í höfnum, háum sektum og gervihnattaeftirliti. Iðnaðarskip eru skylduð til að hleypa eftirlitsmönnum um borð og setja upp eftirlitsbúnað. Í Gambíu, eins og víða, hefur pólitískur vilji, tæknileg kunnátta og fjárhagsleg geta ekki verið til staðar. En þótt Gambía eigi engin eftirlitsskip reynir ríkið að vernda lögsögu sína. Í ágúst 2019 var ég með í leynilegu eftirliti sem sjávarútvegsráðuneytið stóð að í samstarfi við Sea Shepherd. Samtökin sigldu tæplega sextíu metra löngu skipi að nafni Sam Simon inn á svæðið með miklar eldsneytisbyrðgir og styrktan skrokk til að hægt sé að sigla á önnur skip. Sam Simon, eftirlitsskip Sea Shepherd.Mynd/Fábio Nascimento Sea Shepherd á staðinn Í Gambíu er leyfist einungis heimamönnum að veiða á níu mílna svæðinu næst landi. Þrátt fyrir það má gjarnan sjá erlenda togara nærri ströndinni. Verkefni Sea Shepherd var að finna og fara um borð í skið boðflenna eða önnur skip sem töldust brotleg. Síðustu ár hafa samtökin starfað með stjórnvöldum í Gabon, Líberíu, Benín og Namibíu við svipuð eftirlitsverkefni. Sumir sérfræðingar hafa gagnrýnt þetta og sagt sýndarmennsku en verkefnin hafa engu að síður leitt til rúmlega fimmtíu handtaka. Afar fáum embættismönnum var tilkynnt um verkefni Sea Shepherd í Gambíu. Í von um að fela sig frá sjómönnum sigldu samtökin nokkrum litlum bátum inn að landi um nóttina og nýttu þá til að ferja þungvopnaða sjóhermenn og embættismenn um borð á sam Simon. Með okkur í för voru tveir öryggisverktakar frá Ísrael sme höfðu þjálfað gambísku hermennina í að fara um borð í önnur skip. Á meðan við biðum á skipinu sýndi einn gambísku varðanna mér tónlistarmyndband á símanum sínum. Lagið var eftir rapparann ST Brikama Boyo og hét Fuwareyaa, sem þýðir fátækt. „Við eigum fæst nokkurt kjöt. Nú hafa Kínverjarnir tekið sjóinn af okkur í Gunjur og við eigum heldur ekki fisk.“ Eftir þrjá tíma höfðu öll erlendu skipin svo gott sem horfið, þau virtust vera á samstilltum flótta. Skipstjórinn taldi að sjómennirnir hefðu fengið upplýsingar um eftirlitið og í staðinn fyrir að einbeita sér að smærri skipum, sem flest voru frá nærliggjandi ríkjum, beindi hann sjónum sínum að þeim 55 iðnaðartogurum sem voru við löglegar veiðar í gambískri lögsögu. Því þyrftu sjóhermennirnir að fara um borð á stærri, dýrari skipum þar sem eigendurnir áttu margir í nánum tengslum við kínversk og gambísk stjórnvöld. Um klukkutíma síðar sigldum við upp að Lu Lao Yuan Yu 010. Fjörutíu metra löngu mbláum togara í eigu kínverska fyrirtækisins Qingdao Tangfeng Ocean Fishery, fyrirtækisins sem sér öllum gambísku fiskimjölsvinnslunum fyrir hráefni. Átta manna sveit gambískra eftirlitsmanna af Sam Simon fór um borð með AK-47 riffla á öxlinni. Einn var svo stressaður að hann gleymdi gjallarhorninu sínu. Sólgleraugu annars féllu í sjóinn þegar hann stökk um borð. Um borð á Lu Lao Yuan Yu 010 voru tíu kínverskir yfirmenn, fjórir Gambíumenn og 35 Senegalar. Gambísku sjóhermennirnir yfirheyrðu sjómanninn, hin nlágvaxna Shenzhong Qui. Tíu afrískir sjómenn í gulum höndum stóðu saman við færiband og sorteruðu bonga-fisk, makríl og aðrar tegundir. Ég ræddi við einn verkamanninn sem sagðist heita Lamin Jarju. Enginn heyrði í okkur vegna hávaðans í færibandinu en hann lækkaði samt róm sinn og sagði að skipið hefði verið við veiðar innan níu mílna svæðisins þar til skipstjóranum barst viðvörun um að eftirlit væri í gangi. Þegar ég spurði Jarju hvers vegna hann sagði mér frá brotinu bað hann mig um að fylgja sér. Hann leiddi mig upp um tvær hæðir og sýndi mér krumpuð dagblöð, föt og teppi þar sem hann sagði áhöfnina hafa sofið síðustu vikur. „Þeir koma fram við okkur eins og hunda,“ sagði Jarju. Þegar ég kom aftur upp á dekk var hávaðarifrildi í gangi. Gambíski sjóhermaðurinn Modou Jallow uppgötvaði að allar skrár skipsins yfir veiðar voru tómar. Skipstjórum ber skylda til þess að skrá ferðir sínar, hversu lengi áhöfnin er við störf og hvað hún veiðir. Hermaðurinn sagði félögum sínum að handtaka Qui skipstjóra sem var bálreiður og hrópaði: „Enginn heldur svona skrár!” Það var alveg rétt hjá honum. Brot sem þessi eru afar algeng, sérstaklega á skipum við strendur Vestur-Afríku þar sem tilmæli stjórnvalda eru gjanan óskýr. Skipstjórar líka á þessar skrár sem verkfæri embættismanna í leit að mútum eða barefli umhverfisverndarsinna. En skortur á raunverulegri skráningu leiðir til þess að nær ógerlegt er að leggja mat á það hversu miklum skaða fiskistofnar Gambíumanna hafa orðið fyrir. Vísindamenn reiða sig á kannanir, módel og skrár sjómanna. Jallow skipaði skipstjóranum að sigla aftur í höfn og þeir rifust alla leið að vélarrýminu þar sem skipstjórinn sagðist þurfa tíma til að gera við leiðslu. Nægan tíma, taldi áhöfnin á Sam Simon, til að biðja yfirmennina í Kína til þess að biðja Gambíumenn um greiða. Jallow taldi sig vita í hvað stefndi og sló skipstjórann. „Þú hefur klukkutíma og ég mun fylgjast með þér,“ hrópaði hann. Tuttugu mínútum síðar var skipið lagt af stað. Næstu vikurnar gerðu Sam Simon-menn rassíu á fjórtán erlendum skipum. Flest voru kínversk og höfðu leyfi fyrir veiðunum. Hald var lagt á þrettán skip. Það þýðir að þeim var haldið í höfn í nokkrar vikur og eigendur sektaðir um fimm til fimmtíu þúsun dali. Öll skipin utan eins voru sökuð um að skrá ekki veiðar sínar og flest voru sektuð fyrir óviðunandi aðstæður fyrir áhöfnina. Á einu skipinu voru ekki nógu mörg stígvél fyrir áhöfnina og einn senegalskur sjómaður fékk sár á fótinn þegar hann þurfti að vinna í sandölum. Á öðru skipi þurftu átta að sofa í tveggja manna rými. Engar myndavélar Ég hitti Manneh, gambískan blaðamann og umhverfisverndarsinna, í höfuðborginni Banjul. Við hittumst í anddyri Laico Atlantic-hótelsins. Canon eftir Pachelbel spilaðist síendurtekið í bakgrunninum á meðan vatn lak í fötur í gegnum loftið. Manneh var nýkominn aftur til Gambíu eftir ársferð til Kýpur. Bróður hans og faðir höfðu verið handteknir fyrir að gagnrýna Yahya Jammeh, einræðisherrann sem hrökklaðist frá völdum árið 2017. Manneh, sem sagði mér að hann vildi einu sinni veðra forseti, bauðst til að sýna mér vinnslustöð Golden Lead. Daginn eftir sneri Manneh aftur í Toyota Corolla-bifreið sem hann tók á leigu. Moldarvegur var frá hótelinu að Golden Lead og rigningar undanfarinna daga gerðu leiðina torfæra. Þetta voru tæpir fimmtíu kílómetrar og við vorum um tvo tíma á leiðinni. Hann bað mig um að taka enga myndavél með og segja ekkert slæmt um fiskimjöl. Viku áður en ég kom til Gambíu höfðu sjómennirnir sem rifu upp úrgangsleiðslu fyrirtækisins ráðist á evrópska rannsakendur. Þeir vildu ekki að erlendir miðlar fjölluðu um gambísk vandamál. Við vorum loks komnir á staðinn, fimm hundruð metra frá ströndinni. Gríðarlegur óþefur var á svæðinu og konur reyktu og þurrkuðu feng dagsins skammt frá vinnslustöðinni. Ein konan sagði samkeppnina við Golden Lead vonlausa. Nær allur fiskurinn fari þangað. Fiskimjölsvinnslan samanstendur af nokkrum stærðarinnar steinsteypuhúsum og sextán geymsluturnum. Það er tiltölulega einfalt að framleiða fiskimjöl og ferlið er að mestu vélknúið. Því þarf svona stór vinnsla ekki nema um tólf starfsmenn í einu. Myndefni sem starfsmaður tók í leyni innan úr vinnslunni sýnir að húsin eru stór, skítug og myrk. Verkamenn skófla fiski í trekt. Færiband flytur fiskinn í ker þar sem hann e rmaukaður og síðan eldaður. Olía er skilin frá maukinu og afgangurinn er þurrkaður og malaður í fiskimjöl. Þegar það kólnar skófla starfsmenn mjölinu í stóra poka. Nærri inngangnum ber hópur ungra manna barmafullar körfur af fiski. Ebrima Jallow, sjómaður á fimmtugsaldri, segir að konurnar borgi meira fyrir hverja körfu en Golden Lead kaupi meiri fisk og borgi jafnan fyrir tuttugu köfur í einu. Það geti konurnar ekki gert. Skammt frá stendur Dawda Jack Jabang, 56 ára gamall eigandi hótelsins Treehouse Lodge, sem nú stendur autt. „Ég eyddi tveimur árum í uppbyggingu hér og á einni nóttu eyðilagði Golden Lead líf mitt,“ sagði Jabang. Bókunum hefur fækkað og lyktin frá vinnslunni er svo sterk að enginn hefur lyst á að borða á veitingastað hótelsins. Jabang segir Golden Lead hafa valdið meira tjóni fyrir bæinn en gagni. Störf sjómannanna sem veiða fyrir Golden Lead séu ekki góð. „Þeir eru að hafa okkur að ösnum.“ Veiran og mútugreiðslur Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur varpað ljósi á erfiða stöðu á vinnumarkaði á svæðinu og spillingu. Í maí fóru farandverkamenn heim til að fagna Eid á sama tíma og landamærunum var lokað. Þar sem starfsfólk gat ekki komið aftur til Gambíu þurfti að hætta starfsemi hjá Golden Lead og öðrum vinnslum. Eða þannig átti það allavega að vera. Manneh hefur í fórum sínum leynilega upptöku þar sem Bamba Banja í sjávarútvegsráðuneytinu ræðir mútur í staðinn fyrir að leyfa vinnslunum að starfa áfram þrátt fyrir kórónuveirutakmarkanir. Banja tók sér leyfi fr´astörfum í október eftir að lögregla komast að því að hann þáði um milljón króna mútugreiðslur frá kínverskum sjómönnum og fyrirtækjum, meðal annars Golden Lead. Daginn sem ég heimsótti Golden Lead fór ég niður að ströndinni og sá að ný úrgangsleiðsla fyrirtækisins var þegar farin að ryðga. Kínverski fáninn var farinn og ég fann fyrir vökvanum flæða í gegnum leiðsluna. Augnabliki síðar vísaði gambískur vörður mér á brott. Degi síðar fór ég á eina alþjóðaflugvöll landsins, um klukkutíma frá höfuðborginni Banjul, til að fljúga heim. Taskan var orðin ansi létt enda hafði ég hent flestum fötunum mínum vegna óþefsins frá fiskimjölsvinnslunni. Þegar leigubílsstjórinn ók mér á flugvöllinn bölvaði hann endalausum holum í veginum. „Þetta er vegurinn sem vinnslan lofaði að leggja.“ Á flugvellinum komst ég að því að aragrúi fugla hafði komið saman á flugbrautinni og seinkað för minni. Á meðan ég beið hringdi ég í Mustapha Manneh. Hann svaraði, staddur á heimili sínu nærri Gunjur, og sagði mér að hann væri í garðinum að horfa á veginn frá fiskimjölsvinnslunni JXYG að stærstu höfn landsins. Á meðan símtalinu stóð sá hann tíu vöruflutningabíla, fulla af fiskimjöli, á leið að höfninni með mjöl sem flytja átti til Asíu, Evrópu á Bandaríkjanna. „Þetta eykst með hverjum deginum,“ sagði Manneh. Þessi umfjöllun er unnin í samstarfi við Ian Urbina, bandarískan rannsóknarblaðamann, og The Outlaw Ocean Project. Gambía Kína Umhverfismál Fréttaskýringar Mest lesið Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Erlent Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Erlent Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Innlent „Þú veist að ég er sú sem að passar best hérna inn“ Innlent „Ég fæ ekki séð hvaða rugl þetta er“ Innlent „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Innlent Fyrsti læknirinn í heilbrigðisráðuneytinu Innlent Segir Helga Magnús óhæfan til að gegna embættinu Innlent „Ég veit að þér mun sömuleiðis líða vel hér“ Innlent Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Innlent Fleiri fréttir Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Færeyingar fagna tvennum göngum Íslenskur skurðlæknir hlúir að fólki í Magdeburg Mótmælt á meðan minningarathöfn stóð yfir „Þetta var gjörsamlega hræðilegt“ Fimm látnir og tvö hundruð særðir Koma naumlega í veg fyrir stöðvun ríkisreksturs Fimmtugur geðlæknir ók bílnum Heyrðu í þyrlum og öskrum út um gluggann Bifreið ekið á hóp fólks á jólamarkaði Hefja aftur leit að MH370 rúmum tíu árum eftir hvarfið Vara við upprisu ISIS Sjö ára stúlka stungin til bana í skóla Zagreb Eins og Pelicot hafi geymt glæpina á hörðu drifi í huga sínum Repúblikanar höfnuðu fjárlagafrumvarpi sem Trump studdi Sænskur rappari skotinn til bana í bílastæðahúsi Skoða hvort stunguárás hafi átt að líkjast morðinu í New York Mangione líka ákærður af alríkissaksóknurum Saksóknari sagður óhæfur í síðasta málinu gegn Trump Þrjátíu og fimm börn tróðust undir á jólahátíð Danskt sjúkrahús kært til lögreglu vegna tilrauna á ungum drengjum Musk og Trump valda uppnámi í Washington Skorar vestrið á hólm í 21. aldar einvígi Vaktin: Dominique Pelicot dæmdur í tuttugu ára fangelsi Hætta að rukka í almenningssamgöngurnar Dómar yfirvofandi í máli Pelicot Ætla að birta Gaetz-skýrsluna eftir allt saman Hæstiréttur staðfestir dóm yfir Sarkozy Segir sýrlensku þjóðina þreytta og vilja fá að lifa í friði Sjá meira
Fimmtán þúsund manna bærinn Gunjur er á suðurströnd Gambíu, smæsta ríkis Afríku. Hvítar strendur bæjarins iða af lífi á daginn. Sjómenn stýra máluðum viðarbátum sínum að landi og koma spriklandi fiskinum til kvennanna sem þar bíða. Fiskurinn er síðan fluttur á nærliggjandi markaði í ryðguðum hjólbörum eða körfum sem konurnar bera á höfðinu. Litlir strákar spila fótbolta á meðan ferðamenn fylgjast með. Þegar kvöldið rennur upp hættir fólk að vinna og varðeldar eru kveiktir á ströndinni. Heyra má trommuslátt og menn með olíubornar bringur keppa í hefðbundinni glímu. Rólegra andrúmsloft tekur við eftir fimm mínútna göngu inn að landi. Þar er Bolong Fenyo, griðarstaður fyrir dýr. Samfélagið í Gunjur stofnaði athvarfið árið 2008 til þess að vernda um þrjá ferkílómetra af strandlengju, mýrum, sléttum og lóni. Lónið er um kílómetra langt og einhver hundruð metra að breidd. Það er heimili fjölda fugla, höfrunga, leðurblaka, krókódíla og apa. Þessi griðarstaður er afar mikilvægur fyrir heilsu vistkerfisins á svæðinu og aflar samfélaginu einnig tekna vegna þeirra ferðamanna sem þangað koma. Allt rautt og dautt Að morgni 22. maí árið 2017 vaknaði samfélagið í Gunjur við það að lónið í Bolong Fenyo var orðið blóðrautt og dauður fiskur var fljótandi á yfirborðinu. „Allt er orðið rautt og dautt,“ skrifaði blaðamaður á svæðinu. Einhverjir íbúar veltu því fyrir sér hvort þetta væri einhvers konar fyrirboði. Líklegra þykir að vatnaflær hafi litað vatnið rautt vegna breytinga á annað hvort súrefnismagni eða sýrustigi. Fljótlega í kjölfarið greindu staðarmiðlar frá því að fuglar hreiðruðu ekki lengur um sig við lónið. Hópur íbúa fyllti flöskur með vatni úr lóninu og færði eina bæjarbúanum sem gæti hugsanlega komið til aðstoðar, Ahmed Manjang. Hann er fæddur og uppalinn í Gunjur en starfar nú við örverufræði í Sádi-Arabíu. Í maí 2017 var hann í heimsókn hjá fjölskyldu sinni í Gunjur og safnaði eigin sýnum á svæðinu sem hann sendi til greiningar í Þýskalandi. Niðurstöðurnar voru sláandi. Tvöfalt meira var af arseniki í vatninu en talið er öruggt og fjörutíu sinnum meira magn af fosfötum og nítrötum. Næsta vor skrifaði hann umhverfismálaráðherra Gambíu bréf og sagði dauða lónsins hreint stórslys. Mengunin gæti einungis átt sér eina skýringu. Kínverska fiskvinnslan Golden Lead, sem er staðsett á jaðri griðarsvæðisins, hefði losað sig við úrgang á ólöglegan hátt. Umhverfismálayfirvöld í landinu sektuðu loks fyrirtækið um rúmar þrjár milljónir króna og lýsir Manjang sektinni sem hneykslanlega lágri. Veiðibátur skammt frá ströndum GambíuMynd/Fábio Nascimento Tækifæri til uppbyggingar Golden Lead er hluti af „Belti og braut“, hinu metnaðarfulla, hnattræna innviðaverkefni Kínverja sem ríkisstjórn landsins segir að eigi að bæta samband Kína við umheiminn, styrkja samstarf á sviði efnahagsmála og veita fátækari ríkjum tækifæri til uppbyggingar. Með verkefninu er Kína orðið stærsti erlendi fjárfestirinn í innviðaverkefnum í Afríku og er í einokunarstöðu þegar kemur að byggingu vega, leiðsla, orkuvera og hafna. Árið 2017 afskrifuðu Kínverjar fjórtán milljóna dala skuld Gambíumanna og fjárfestu fyrir 33 milljónir í landbúnaði og sjávarútvegi í landinu, meðal annars með stofnun Golden Lead og tveggja annarra fiskvinnslufyrirtækja. Íbúum Gunjur var tjáð að stofnun Golden Lead myndu fylgja störf, fiskmarkaður og nýr vegur í gegnum miðju bæjarins. Golden Lead og aðrar fiskvinnslur voru byggðar upp á methraða til þess að svara aukinni hnattrænni eftirspurn eftir fiskimjöli, þessu gyllta púðri sem fæst við að mala og elda fisk. Mjölið er flutt út til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu þar sem það er notað sem prótíngjafi í vaxandi fiskeldisiðnaði. Framleiðsla fiskimjöls hefur aukist afar hratt í Vestur-Afríku. Fimmtíu vinnslustöðvar eru á ströndum Máritaníu, Senegal, Gíneu-Bissá og Gambíu. Gríðarlegt magn af fiski þarf til framleiðslunnar og notar ein vinnslustöð í Gambíu meira en 7.500 tonn af fiski á ári. Fiskeldi vaxið fiskur um hrygg Vöxtur fiskeldisiðnaðarins hefur breytt starfsháttum sjómanna á svæðinu mjög, en flestir kasta þeir netum úr litlum viðarbátum með afllitla utanborðsmótora. Hundruð löglegra og ólöglegra erlendra báta, meðal annars risavaxnir togarar, er nú komnir inn í gambískra lögsögu og valda stórtjóni á fiskistofnum og lifnaðarháttum heimamanna. Abul Sisai seldi veiklulegan grana á Tanji-fiskmarkaðnum sumarið 2019. Flugur svifu yfir söluborðinu, reykur var í loftinu og máfar voru á sveimi í von um bita. Sisai segir að fyrir tuttugu árum hafi miðin verið svo gjöful að fólk gat jafnvel fengið hann endurgjaldslaust á mörkuðum. Nú kosti hann meira en flestir geta borgað og þarf Sisai að selja ferðalöngum glingur á kvöldin til að afla meiri tekna. „Sibijan deben,“ sagði Sisai á mandinka, einu af stóru tungumálum Gambíu. Heimamenn nota frasann, sem vísar til skugga stórra pálmatrjáa, til að lýsa áhrifum fiskimjölsútflutnings. Gróðinn fer allur til fólks fjarri miðunum. Undanfarin ár hefur verð á fiski hækkað hratt, samkvæmt Assiciation for the Promotion and Empowerment of Marine Fishers, senegölsum rannsóknarsamtökum. Helmingur Gambíumanna er fyrir neðan alþjóðleg fátæktarmörk og fiskur, einna helst af tegundinni sem heimamenn nefna bonga, stendur undir helmingi af prótínþörf þjóðarinnar. Dæla úrgangi í sjóinn Eftir að Golden Lead var sektað árið 2019 hætti fyrirtækið að demba eitruðum úrgangi beint í lónið. Þess í stað byggði það langa leiðslu undir nærliggjandi strönd og dældi úrganginum í sjóinn. Sundgarpar kvörtuðu fljótlega yfir útbrotum og dauðum fiskum, höfrungum og jafnvel hvölum skolaði á land í miklu magni. Heimamenn tendruðu ilmkerti og reykelsi í von um að losna við óþefinn frá vinnslunni og túristar báru grímur. Jojo Huang, framkvæmdastjóri vinnslunnar, sagði opinberlega að fyrirtækið fari eftir öllum reglum og dæli úrgangi ekki í sjóinn. Vinnslan hafi verið bænum til góðs, sagði hún við The Guardian. Í mars árið 2018 söfnuðust um 150 verslunareigendur, ungmenni og sjómenn saman á ströndinni með skóflur og önnur verkfæri til þess að grafa leiðslu Golden Lead upp og eyðileggja hana. Tveimur mánuðum síðar komu starfsmenn Golden Lead á ströndina, með leyfi stjórnvalda, lögðu nýja leiðslu og plöntuðu kínverska fánanum við hana. Íbúum þótti þetta til marks um nýja heimsvaldastefnu. Manjang var hneykslaður og sagði ekkert vit í þessu þegar ég heimsótti fjölskyldu hans í Gunjur. „Kínverjar flytja bonga-fiskinn okkar úr landi til að fóðra beitarfiskinn sem þeir rækta. Hann senda þeir svo aftur til Gambíu og selja okkur á hærra verði eftir að búið er að dæla í hann hormónum og sýklalyfjum,“ sagði Manjang. Enn undarlegra væri beitarfiskur sé plöntuæta sem hafi verið sérstaklega þjálfuð til þess að éta fiskimjöl. Manjang hafði samband við umhverfisverndarsinna og blaðamenn, sem og gambíska þingmenn, áður en viðskiptaráðherra landsins varaði hann við því að þessi málflutningur myndi grafa undan erlendum fjárfestingum í landinu. Dr. Bamba Banja, æðsti yfirmaður sjávarútvegsráðuneytisins, gaf lítið fyrir gagnrýn og sagði blaðamanni á svæðinu að óþefurinn frá vinnslustöðvunum væri ekki nema „peningalykt“. Frá fiskmarkaði í Gambíu.Mynd/Fábio Nascimento Tvöföld eftirspurn Eftirspurn eftir sjávarfangi í heiminum hefur tvöfaldast frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og er orðin meiri en hægt er að veiða með sjálfbærum hætti. Áttatíu prósent fiskistofna í heiminum hafa orðið fyrir stórtjóni. Í von um að snúa þróuninni við hefur fiskeldi vaxið fiskur um hrygg. Þessi hraðast vaxandi geiri matvælaframleiðslu er um 160 milljarða dala virði og skilar af sér nærri helmingi alls þess sjávarfangs sem fólk neytir. Þótt sala sjávarfangs til hótela og veitingastaða hafi snarminnkað vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið hægt að vinna tekjutapið upp vegna þess að fólk eldar meiri fisk heima. Bandaríkin flytja inn um áttatíu prósent síns sjávargangs, að mestu úr fiskeldi, og kemur bróðurparturinn frá Kínverjum sem eru stærsta fiskeldisþjóð heims. Fiskeldi hefur verið til í einhverri mynd í aldaraðir og hefur nokkra kosti sem hefðbundnar veiðar hafa ekki. Minna veiðist fyrir slysni af öðrum tegundum sem dregur úr brottkasti. Eldi á til dæmis ostrum og kræklingi lækkar svo verðið á afurðinni. Í Indlandi og víða annars staðar í Asíu er fiskeldi afar mikilvæg uppspretta starfa, sérstaklega fyrir konur. Fiskeldi gerir heildsölum auðveldara að ganga úr skugga um að þeir selji ekki afurð ólöglegra veiða eða styðji vinnuþrælkun með óbeinum hætti. Fiskeldi getur einnig leitt til minni umhverfisskaða ef ströngum reglum er fylgt. Minna er notað af ferskvatni og landi en undir flesta kvikfjárrækt og er útblástur koltvísýringsígilda á hvert kíló af afurð fjórðungur af því sem tíðkast við nautgriparækt. Gallarnir eru þó einnig til staðar. Þegar milljónum fiska er þröngvað í lítið pláss skapast mikill úrgangur. Úr verður þykkt slím á botninum sem kæfir plöntur og önnur dýr. Nitur og fosfór í vatninu aukast afar mikið og drepa þörunga og fiska og hrekja túrista á brott. Eldisfiskurinn, sem er stærri en sá villti, sleppur af og til og ógnar lífríkinu. Þrátt fyrir það er ljóst að við þurfum að reiða okkur á fiskeldi ef við ætlum að fóðra hið vaxandi mannkyn, sem enn reiðir sig á dýraprótín. Árið 2019 gaf Nature Conservancy út skýrslu þar sem hvatt var til aukins fiskeldis. Í skýrslunni sagði að fiskeldi ætti að vera orðinn stærsti hluti sjávarfangsframleiðslu fyrir árið 2050. Umhverfisverndarsinnar segja margir að hægt sé að gera fiskeldi enn sjálfbærra með hertu regluverki, betri úrvinnslu úrgangs og nýrri tækni. Þrýst hefur verið á að eldi sé frekar staðsett lengra inni í landi. Stærsta áskorunin í fiskeldi er að fóðra fiskinn. Fóðurkostnaður er um sjötíu prósent af rekstrarkostnaði fiskeldis og eina fóðrið sem er nógu ódýrt hingað til er fiskimjöl. Fiskeldisstöðvar sem framleiða vinsælt sjávarfang á borð við karfa eða lax nota oft meiri fisk í fóður en þær selja til verslana og veitingastaða. Eldistúnfiskur getur til dæmis étið allt að fimmtánfalda þyngd sína af fiskimjöli áður en hann ratar á markað. Rannsakendur hafa komið auga á mögulega valkosti aðra en fiskimjöl, til dæmis mannlegan úrgang, þang og lirfur en peningahliðin gengur ekki upp enn sem komið er. Þetta veldur erfiðri þversögn. Sjávarútvegur reynir að stunda hægja á ofnýtingu sjávarafurða en með því að rækta þann fisk sem við borðum helst í fiskeldu erum við að veiða meira af öðrum fiski. Gambía flytur meginþorra síns fiskimjöls til Kína og Noregs þar sem það er notað til að framleiða ódýran lax fyrir Evrópu- og Ameríkumarkað en á sama tíma er fiskurinn sem Gambíumenn borða sjálfir að hverfa. Gambískir þingmenn söfnuðust saman á árlegan fund í september 2019 þar sem James Gomez sjávarútvegsráðherra fullyrti að gambískur sjávarútvegur væri í miklum blóma. Sjávarútvegur er stærsti atvinnuvegur landsins. Þegar þingmaður spurði út í gagnrýni á fiskimjölsvinnslurnar þrjár og út í ofveiðar á bonga-fiski vildi Gomez litlu svara. „Þetta eru alfarið sjálfbærar veiðar,“ sagði Gomez og bætti því við að nóg væri af fiski til að starfrækja tvær vinnslur til viðbótar. Erfitt að meta stöðuna Jafnvel undir bestu hugsanlegu kringumstæðum er erfitt að leggja mat á stöðu fiskistofna. Rannsakendur segja að það að telja fisk sé eins og að telja tré, nema þeir séu að mestu ósýnilegir og á stöðugri hreyfingu. Ad Corten, hollenskur líffræðingur, sagði mér að verkefnið sé enn þyngra í Vestur-Afríku þar sem stjórnvöld hafi ekki nægt fjármagn til þess að gera rannsóknir sem þessar. Einu áreiðanlegu rannsóknirnar á fiskistofnum á svæðinu snúa að Máritaníu og samkvæmt Corten sýna þær að fiskimjölsvinnslan hafi bitnað svakalega á stofnunum. „Staðan í Gambíu er alverst,“ sagði Corten og tók fram að sjávarútvegsráðuneyti landsins haldi varla skrár yfir það hversu mikið er veitt með löglegum hætti, hvað þá ólöglegum. Eftir því sem fiskistofnar hafa dvínað hafa auðugri ríki aukið eftirlit, meðal annars með aukinni gæslu í höfnum, háum sektum og gervihnattaeftirliti. Iðnaðarskip eru skylduð til að hleypa eftirlitsmönnum um borð og setja upp eftirlitsbúnað. Í Gambíu, eins og víða, hefur pólitískur vilji, tæknileg kunnátta og fjárhagsleg geta ekki verið til staðar. En þótt Gambía eigi engin eftirlitsskip reynir ríkið að vernda lögsögu sína. Í ágúst 2019 var ég með í leynilegu eftirliti sem sjávarútvegsráðuneytið stóð að í samstarfi við Sea Shepherd. Samtökin sigldu tæplega sextíu metra löngu skipi að nafni Sam Simon inn á svæðið með miklar eldsneytisbyrðgir og styrktan skrokk til að hægt sé að sigla á önnur skip. Sam Simon, eftirlitsskip Sea Shepherd.Mynd/Fábio Nascimento Sea Shepherd á staðinn Í Gambíu er leyfist einungis heimamönnum að veiða á níu mílna svæðinu næst landi. Þrátt fyrir það má gjarnan sjá erlenda togara nærri ströndinni. Verkefni Sea Shepherd var að finna og fara um borð í skið boðflenna eða önnur skip sem töldust brotleg. Síðustu ár hafa samtökin starfað með stjórnvöldum í Gabon, Líberíu, Benín og Namibíu við svipuð eftirlitsverkefni. Sumir sérfræðingar hafa gagnrýnt þetta og sagt sýndarmennsku en verkefnin hafa engu að síður leitt til rúmlega fimmtíu handtaka. Afar fáum embættismönnum var tilkynnt um verkefni Sea Shepherd í Gambíu. Í von um að fela sig frá sjómönnum sigldu samtökin nokkrum litlum bátum inn að landi um nóttina og nýttu þá til að ferja þungvopnaða sjóhermenn og embættismenn um borð á sam Simon. Með okkur í för voru tveir öryggisverktakar frá Ísrael sme höfðu þjálfað gambísku hermennina í að fara um borð í önnur skip. Á meðan við biðum á skipinu sýndi einn gambísku varðanna mér tónlistarmyndband á símanum sínum. Lagið var eftir rapparann ST Brikama Boyo og hét Fuwareyaa, sem þýðir fátækt. „Við eigum fæst nokkurt kjöt. Nú hafa Kínverjarnir tekið sjóinn af okkur í Gunjur og við eigum heldur ekki fisk.“ Eftir þrjá tíma höfðu öll erlendu skipin svo gott sem horfið, þau virtust vera á samstilltum flótta. Skipstjórinn taldi að sjómennirnir hefðu fengið upplýsingar um eftirlitið og í staðinn fyrir að einbeita sér að smærri skipum, sem flest voru frá nærliggjandi ríkjum, beindi hann sjónum sínum að þeim 55 iðnaðartogurum sem voru við löglegar veiðar í gambískri lögsögu. Því þyrftu sjóhermennirnir að fara um borð á stærri, dýrari skipum þar sem eigendurnir áttu margir í nánum tengslum við kínversk og gambísk stjórnvöld. Um klukkutíma síðar sigldum við upp að Lu Lao Yuan Yu 010. Fjörutíu metra löngu mbláum togara í eigu kínverska fyrirtækisins Qingdao Tangfeng Ocean Fishery, fyrirtækisins sem sér öllum gambísku fiskimjölsvinnslunum fyrir hráefni. Átta manna sveit gambískra eftirlitsmanna af Sam Simon fór um borð með AK-47 riffla á öxlinni. Einn var svo stressaður að hann gleymdi gjallarhorninu sínu. Sólgleraugu annars féllu í sjóinn þegar hann stökk um borð. Um borð á Lu Lao Yuan Yu 010 voru tíu kínverskir yfirmenn, fjórir Gambíumenn og 35 Senegalar. Gambísku sjóhermennirnir yfirheyrðu sjómanninn, hin nlágvaxna Shenzhong Qui. Tíu afrískir sjómenn í gulum höndum stóðu saman við færiband og sorteruðu bonga-fisk, makríl og aðrar tegundir. Ég ræddi við einn verkamanninn sem sagðist heita Lamin Jarju. Enginn heyrði í okkur vegna hávaðans í færibandinu en hann lækkaði samt róm sinn og sagði að skipið hefði verið við veiðar innan níu mílna svæðisins þar til skipstjóranum barst viðvörun um að eftirlit væri í gangi. Þegar ég spurði Jarju hvers vegna hann sagði mér frá brotinu bað hann mig um að fylgja sér. Hann leiddi mig upp um tvær hæðir og sýndi mér krumpuð dagblöð, föt og teppi þar sem hann sagði áhöfnina hafa sofið síðustu vikur. „Þeir koma fram við okkur eins og hunda,“ sagði Jarju. Þegar ég kom aftur upp á dekk var hávaðarifrildi í gangi. Gambíski sjóhermaðurinn Modou Jallow uppgötvaði að allar skrár skipsins yfir veiðar voru tómar. Skipstjórum ber skylda til þess að skrá ferðir sínar, hversu lengi áhöfnin er við störf og hvað hún veiðir. Hermaðurinn sagði félögum sínum að handtaka Qui skipstjóra sem var bálreiður og hrópaði: „Enginn heldur svona skrár!” Það var alveg rétt hjá honum. Brot sem þessi eru afar algeng, sérstaklega á skipum við strendur Vestur-Afríku þar sem tilmæli stjórnvalda eru gjanan óskýr. Skipstjórar líka á þessar skrár sem verkfæri embættismanna í leit að mútum eða barefli umhverfisverndarsinna. En skortur á raunverulegri skráningu leiðir til þess að nær ógerlegt er að leggja mat á það hversu miklum skaða fiskistofnar Gambíumanna hafa orðið fyrir. Vísindamenn reiða sig á kannanir, módel og skrár sjómanna. Jallow skipaði skipstjóranum að sigla aftur í höfn og þeir rifust alla leið að vélarrýminu þar sem skipstjórinn sagðist þurfa tíma til að gera við leiðslu. Nægan tíma, taldi áhöfnin á Sam Simon, til að biðja yfirmennina í Kína til þess að biðja Gambíumenn um greiða. Jallow taldi sig vita í hvað stefndi og sló skipstjórann. „Þú hefur klukkutíma og ég mun fylgjast með þér,“ hrópaði hann. Tuttugu mínútum síðar var skipið lagt af stað. Næstu vikurnar gerðu Sam Simon-menn rassíu á fjórtán erlendum skipum. Flest voru kínversk og höfðu leyfi fyrir veiðunum. Hald var lagt á þrettán skip. Það þýðir að þeim var haldið í höfn í nokkrar vikur og eigendur sektaðir um fimm til fimmtíu þúsun dali. Öll skipin utan eins voru sökuð um að skrá ekki veiðar sínar og flest voru sektuð fyrir óviðunandi aðstæður fyrir áhöfnina. Á einu skipinu voru ekki nógu mörg stígvél fyrir áhöfnina og einn senegalskur sjómaður fékk sár á fótinn þegar hann þurfti að vinna í sandölum. Á öðru skipi þurftu átta að sofa í tveggja manna rými. Engar myndavélar Ég hitti Manneh, gambískan blaðamann og umhverfisverndarsinna, í höfuðborginni Banjul. Við hittumst í anddyri Laico Atlantic-hótelsins. Canon eftir Pachelbel spilaðist síendurtekið í bakgrunninum á meðan vatn lak í fötur í gegnum loftið. Manneh var nýkominn aftur til Gambíu eftir ársferð til Kýpur. Bróður hans og faðir höfðu verið handteknir fyrir að gagnrýna Yahya Jammeh, einræðisherrann sem hrökklaðist frá völdum árið 2017. Manneh, sem sagði mér að hann vildi einu sinni veðra forseti, bauðst til að sýna mér vinnslustöð Golden Lead. Daginn eftir sneri Manneh aftur í Toyota Corolla-bifreið sem hann tók á leigu. Moldarvegur var frá hótelinu að Golden Lead og rigningar undanfarinna daga gerðu leiðina torfæra. Þetta voru tæpir fimmtíu kílómetrar og við vorum um tvo tíma á leiðinni. Hann bað mig um að taka enga myndavél með og segja ekkert slæmt um fiskimjöl. Viku áður en ég kom til Gambíu höfðu sjómennirnir sem rifu upp úrgangsleiðslu fyrirtækisins ráðist á evrópska rannsakendur. Þeir vildu ekki að erlendir miðlar fjölluðu um gambísk vandamál. Við vorum loks komnir á staðinn, fimm hundruð metra frá ströndinni. Gríðarlegur óþefur var á svæðinu og konur reyktu og þurrkuðu feng dagsins skammt frá vinnslustöðinni. Ein konan sagði samkeppnina við Golden Lead vonlausa. Nær allur fiskurinn fari þangað. Fiskimjölsvinnslan samanstendur af nokkrum stærðarinnar steinsteypuhúsum og sextán geymsluturnum. Það er tiltölulega einfalt að framleiða fiskimjöl og ferlið er að mestu vélknúið. Því þarf svona stór vinnsla ekki nema um tólf starfsmenn í einu. Myndefni sem starfsmaður tók í leyni innan úr vinnslunni sýnir að húsin eru stór, skítug og myrk. Verkamenn skófla fiski í trekt. Færiband flytur fiskinn í ker þar sem hann e rmaukaður og síðan eldaður. Olía er skilin frá maukinu og afgangurinn er þurrkaður og malaður í fiskimjöl. Þegar það kólnar skófla starfsmenn mjölinu í stóra poka. Nærri inngangnum ber hópur ungra manna barmafullar körfur af fiski. Ebrima Jallow, sjómaður á fimmtugsaldri, segir að konurnar borgi meira fyrir hverja körfu en Golden Lead kaupi meiri fisk og borgi jafnan fyrir tuttugu köfur í einu. Það geti konurnar ekki gert. Skammt frá stendur Dawda Jack Jabang, 56 ára gamall eigandi hótelsins Treehouse Lodge, sem nú stendur autt. „Ég eyddi tveimur árum í uppbyggingu hér og á einni nóttu eyðilagði Golden Lead líf mitt,“ sagði Jabang. Bókunum hefur fækkað og lyktin frá vinnslunni er svo sterk að enginn hefur lyst á að borða á veitingastað hótelsins. Jabang segir Golden Lead hafa valdið meira tjóni fyrir bæinn en gagni. Störf sjómannanna sem veiða fyrir Golden Lead séu ekki góð. „Þeir eru að hafa okkur að ösnum.“ Veiran og mútugreiðslur Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur varpað ljósi á erfiða stöðu á vinnumarkaði á svæðinu og spillingu. Í maí fóru farandverkamenn heim til að fagna Eid á sama tíma og landamærunum var lokað. Þar sem starfsfólk gat ekki komið aftur til Gambíu þurfti að hætta starfsemi hjá Golden Lead og öðrum vinnslum. Eða þannig átti það allavega að vera. Manneh hefur í fórum sínum leynilega upptöku þar sem Bamba Banja í sjávarútvegsráðuneytinu ræðir mútur í staðinn fyrir að leyfa vinnslunum að starfa áfram þrátt fyrir kórónuveirutakmarkanir. Banja tók sér leyfi fr´astörfum í október eftir að lögregla komast að því að hann þáði um milljón króna mútugreiðslur frá kínverskum sjómönnum og fyrirtækjum, meðal annars Golden Lead. Daginn sem ég heimsótti Golden Lead fór ég niður að ströndinni og sá að ný úrgangsleiðsla fyrirtækisins var þegar farin að ryðga. Kínverski fáninn var farinn og ég fann fyrir vökvanum flæða í gegnum leiðsluna. Augnabliki síðar vísaði gambískur vörður mér á brott. Degi síðar fór ég á eina alþjóðaflugvöll landsins, um klukkutíma frá höfuðborginni Banjul, til að fljúga heim. Taskan var orðin ansi létt enda hafði ég hent flestum fötunum mínum vegna óþefsins frá fiskimjölsvinnslunni. Þegar leigubílsstjórinn ók mér á flugvöllinn bölvaði hann endalausum holum í veginum. „Þetta er vegurinn sem vinnslan lofaði að leggja.“ Á flugvellinum komst ég að því að aragrúi fugla hafði komið saman á flugbrautinni og seinkað för minni. Á meðan ég beið hringdi ég í Mustapha Manneh. Hann svaraði, staddur á heimili sínu nærri Gunjur, og sagði mér að hann væri í garðinum að horfa á veginn frá fiskimjölsvinnslunni JXYG að stærstu höfn landsins. Á meðan símtalinu stóð sá hann tíu vöruflutningabíla, fulla af fiskimjöli, á leið að höfninni með mjöl sem flytja átti til Asíu, Evrópu á Bandaríkjanna. „Þetta eykst með hverjum deginum,“ sagði Manneh. Þessi umfjöllun er unnin í samstarfi við Ian Urbina, bandarískan rannsóknarblaðamann, og The Outlaw Ocean Project.
Gambía Kína Umhverfismál Fréttaskýringar Mest lesið Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Erlent Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Erlent Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Innlent „Þú veist að ég er sú sem að passar best hérna inn“ Innlent „Ég fæ ekki séð hvaða rugl þetta er“ Innlent „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Innlent Fyrsti læknirinn í heilbrigðisráðuneytinu Innlent Segir Helga Magnús óhæfan til að gegna embættinu Innlent „Ég veit að þér mun sömuleiðis líða vel hér“ Innlent Yfirgaf jólatónleika í sjúkrabíl Innlent Fleiri fréttir Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir Skutu niður eigin herþotu yfir Rauðahafi Færeyingar fagna tvennum göngum Íslenskur skurðlæknir hlúir að fólki í Magdeburg Mótmælt á meðan minningarathöfn stóð yfir „Þetta var gjörsamlega hræðilegt“ Fimm látnir og tvö hundruð særðir Koma naumlega í veg fyrir stöðvun ríkisreksturs Fimmtugur geðlæknir ók bílnum Heyrðu í þyrlum og öskrum út um gluggann Bifreið ekið á hóp fólks á jólamarkaði Hefja aftur leit að MH370 rúmum tíu árum eftir hvarfið Vara við upprisu ISIS Sjö ára stúlka stungin til bana í skóla Zagreb Eins og Pelicot hafi geymt glæpina á hörðu drifi í huga sínum Repúblikanar höfnuðu fjárlagafrumvarpi sem Trump studdi Sænskur rappari skotinn til bana í bílastæðahúsi Skoða hvort stunguárás hafi átt að líkjast morðinu í New York Mangione líka ákærður af alríkissaksóknurum Saksóknari sagður óhæfur í síðasta málinu gegn Trump Þrjátíu og fimm börn tróðust undir á jólahátíð Danskt sjúkrahús kært til lögreglu vegna tilrauna á ungum drengjum Musk og Trump valda uppnámi í Washington Skorar vestrið á hólm í 21. aldar einvígi Vaktin: Dominique Pelicot dæmdur í tuttugu ára fangelsi Hætta að rukka í almenningssamgöngurnar Dómar yfirvofandi í máli Pelicot Ætla að birta Gaetz-skýrsluna eftir allt saman Hæstiréttur staðfestir dóm yfir Sarkozy Segir sýrlensku þjóðina þreytta og vilja fá að lifa í friði Sjá meira