Enski boltinn

Segja að Liverpool vilja fá Luis Suarez aftur til félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar hér einu af mörkum sínum fyrir Liverpool en þetta kom í leik á móti Everton.
Luis Suarez fagnar hér einu af mörkum sínum fyrir Liverpool en þetta kom í leik á móti Everton. EPA/PETER POWELL

Luis Suarez var besti leikmaður Liverpool í nokkur ár áður en félagið seldi hann til Barcelona. Nú er Úrúgvæmaðurinn orðaður við sitt gamla félag.

Luis Suarez hefur staðið sig frábærlega með Atletico Madrid á þessu tímabili en honum var óvænt sparkað út hjá Barcelona síðasta haust.

Hinn 34 ára gamli framherji var ekki inn í myndinni hjá Ronald Koeman, þá nýjum þjálfara Barcelona, en hefur sýnt Börsungum hverju þeir misstu af. Suarez er með 19 mörk í 25 leikjum á tímabilinu með Atletico Madrid.

Samkvæmt frétt Fichajes.net, sem Four Four Two slær upp, þá er Úrúgvæmaðurinn inn í myndinni hjá Jürgen Klopp, sem er að leita að framherja ef Liverpool selur sinn markahæsta leikmann. Klopp vill fá reynslumikinn framherja og það væri ekki verra ef viðkomandi þekkir vel til á Anfield.

Mo Salah gæti nefnilega farið í sumar en Barcelona, Real Madrid og Paris Saint-Germain er sögð vera á eftir Egyptanum. Roberto Firmino og Sadio Mane hafa heldur ekki verið á skotskónum.

Liverpool keypti Diogo Jota síðasta haust en hann missti mikið úr vegna meiðsla. Liverpool liðinu hefur þannig mistekist að skora í átta af síðustu fjórtán deildarleikjum sínum.

Luis Suarez lék með Liverpool frá 2011 til 2014 en hann skoraði 82 mörk í 133 leikjum með félaginu. Besta tímabilið hans var 2013-14 tímabilið þegar hann skoraði 31 mörk í 33 deildarleikjum og Liverpool var hársbreidd frá því að vinna ensku deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×