Fótbolti

Norsku stjörnurnar Haaland og Ödegaard tóku báðir þátt í Katar-mótmælum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar marki Jonas Svensson á móti Gíbraltar í gær.
Erling Haaland fagnar marki Jonas Svensson á móti Gíbraltar í gær. Getty/Ian Martinez

Leikmenn norska knattspyrnulandsliðsins hófu í gær undankeppni HM í Katar 2022 með því að mótmæla mannréttindabrotum í Katar.

Norðmenn byrjuðu með þægilegum sigri á Gíbraltar en það sem norsku landsliðsmennirnir gerðu í upphitun og fyrir leik vakti meiri athygli.

Allir leikmenn norska landsliðsins klæddust bolum fyrir leikinn þar sem á stóð: Mannréttindi - inn á og utan vallar eða „Human rights - on and off the pitch“ á ensku.

Meðal þeirra voru stórstjörnurnar Erling Haaland hjá Dortmund og Martin Odegaard sem er á láni hjá Arsenal frá Real Madrid.

Norska landsliðið vann 3-0 sigur á Gíbraltar í leiknum. Alexander Sörloth, Kristian Thorstvedt og Jonas Svensson skoruðu mörkin. Norska landsliðið hefur ekki komist á stórmót síðan á EM 2000 og Lars Lagerbäck náði ekki að breyta því.

Norska landsliðið var síðast með á HM 1998 en þykir vera nú með lið sem gæti komist loksins á heimsmeistaramótið.

Mótmælin í Noregi, sem byrjuðu hjá úrvalsdeildarfélaginu Tromsö, hafa fengið talsverðan meðvind að undanförnu en Tromsö skoraði á norska sambandið að sniðganga HM í Katar vegna fjölda mannréttindabrota í landinu.

The Guardian hefur heimildir fyrir því að 6500 farandverkamenn hafi dáið í framkvæmdum tengdum heimsmeistaramótinu síðan árið 2010 þegar Katar tryggði sér réttinn að halda heimsmeistaramótið.

Stjórnvöld í Katar svöruðu með því að segja að aðeins örlítill hluti af þeim 1,4 milljónum farandverkamönnum, sem störfuðu við framkvæmdirnar, hafi dáið í vinnutengdum slysum frá 2010 til 2019.

Stjórnvöld segjast líka hafa gert sitt í að bæta vinnuaðstæður og öryggi verkamannanna á síðustu tveimur áratugum og hafi refsað þeim eigendum fyrirtækja sem hafa brotið reglurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×