Fótbolti

„Þetta er enginn heimsendir“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon stóðu í ströngu í Duisburg í kvöld gegn þýsku stjörnunum.
Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon stóðu í ströngu í Duisburg í kvöld gegn þýsku stjörnunum. Getty/Tobias Schwarz

„Við vissum að þetta væri erfiðasti leikurinn í riðlinum og að stig hérna yrði sigur fyrir okkur,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon á blaðamannafundi eftir 3-0 tapið gegn Þýskalandi í kvöld.

Moskvubúarnir Hörður og Arnór Sigurðsson voru vitaskuld svekktir eftir tapið í kvöld en tóku undir að tap gegn Þýskalandi á útivelli væri ekki eitthvað sem réði örlögum Íslands í baráttunni um sæti á HM. Framundan eru mikilvægir leikir við Armeníu á sunnudag og Liechtenstein á miðvikudag.

„Við reyndum að gera allt sem við gátum og spila vel. Við töpuðum en okkar haus er núna á næstu tvo leiki og við ætlum okkur sigur í þeim báðum. Það verður ekkert vanmat en við förum í þessa leiki til að vinna,“ sagði Hörður.

Ísland er í riðli með Þýskalandi, Rúmeníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein. Efsta liðið í lok undankeppninnar í nóvember kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.

„Ef að Þjóðverjar misstíga sig er tækifæri en það eru líka lið þarna eins og Rúmenía sem eru að berjast við okkur. Þetta er skemmtilegur riðill og við erum bara brattir fyrir næstu leiki,“ sagði Hörður og Arnór tók í sama streng.

„Við ætluðum auðvitað að koma hingað og sækja eitthvað úr þessum leik. Við höfðum allir trú á því. En við vissum líka að Þýskaland er fyrir fram besta liðið í þessum riðli og þetta er enginn heimsendir. Við þurfum að læra af þessum leik og horfa fram á veginn,“ sagði Arnór.


Tengdar fréttir

„Hann sá ekki út um annað augað“

Rúnar Már Sigurjónsson fór meiddur af velli í Þýskalandi í kvöld og Jóhann Berg Guðmundsson tók ekki þátt í leiknum. Arnar Þór Viðarsson segir stöðu Rúnars óljósa en að útlitið sé gott varðandi Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×