Fótbolti

Öll mörkin úr riðli Íslands: Hagi bjargaði Rúmenum og klaufalegt sjálfsmark

Sindri Sverrisson skrifar
Ianis Hagi á ferðinni í leiknum gegn Norður-Makedóníu í gærkvöld.
Ianis Hagi á ferðinni í leiknum gegn Norður-Makedóníu í gærkvöld. Getty/Alex Nicodim

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er nú farið til Armeníu eftir 3-0 tapið í Þýskalandi í gær. Armenar unnu Liechtenstein 1-0 í gær, og Rúmenía vann Norður-Makedóníu 3-2 í þriðja leiknum í riðli Íslands, í undankeppni HM í Katar.

Öll mörkin úr leikjum gærkvöldsins má sjá hér að neðan. Nóg hefur verið fjallað um tap Íslands í Duisburg í gær en þar gerðu Leon Goretzka, Kai Havertz og Ilkay Gündogan mörk Þjóðverja. Tvö fyrstu mörkin komu á fyrstu sjö mínútum leiksins.

Klippa: Mörkin úr leik Þýskalands og Íslands

Rúmenía, sem Ísland vann í EM-umspilsleik í október, gæti orðið erfiðasti keppinautur Íslands í baráttu um 2. sæti riðilsins. Efsta liðið fer beint á HM en liðið í 2. sæti í umspil.

Rúmenar lentu í vandræðum á heimavelli gegn Norður-Makedóníu í gær en Ianis Hagi, sonur goðsagnarinnar Gheorghe Hagi, skoraði sigurmarkið á 85. mínútu. Þá höfðu gestirnir skorað tvö mörk á 82. og 83. mínútu, og náð að jafna metin.

Florin Tanase og Valentin Mihaila, leikmaður Parma, komu Rúmenum í 2-0. Arijan Ademi og Aleksandar Trajkovski skoruðu mörk Norður-Makedóníu.

Klippa: Mörkin úr leik Rúmeníu og N-Makedóníu

Ísland mætir Armeníu á sunnudaginn og svo Liechtenstein á miðvikudaginn. Armenía var lengi að finna leiðina að marki Liechtenstein í gær en sigurmarkið var slysalegt sjálfsmark Liechtenstein á 83. mínútu.

Klippa: Markið úr leik Liechtenstein og Armeníu

Tengdar fréttir

„Þetta er enginn heimsendir“

„Við vissum að þetta væri erfiðasti leikurinn í riðlinum og að stig hérna yrði sigur fyrir okkur,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon á blaðamannafundi eftir 3-0 tapið gegn Þýskalandi í kvöld.

„Hann sá ekki út um annað augað“

Rúnar Már Sigurjónsson fór meiddur af velli í Þýskalandi í kvöld og Jóhann Berg Guðmundsson tók ekki þátt í leiknum. Arnar Þór Viðarsson segir stöðu Rúnars óljósa en að útlitið sé gott varðandi Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×