Enski boltinn

Foden finnur til með Southgate

Anton Ingi Leifsson skrifar
Phil Foden sýnir hversu sterkur hann er.
Phil Foden sýnir hversu sterkur hann er. Eddie Keogh/Getty

Phil Foden, leikmaður Manchester City og enska landsliðsins, segir að það sé ansi mikil samkeppni um stöðurnar í enska landsliðinu.

Hinn tvítugi Foden hefur verið magnaður fyrir Pep Guardiola og lærisveina á leiktíðinni en hann hefur skorað ellefu mörk og lagt upp önnur níu mörk í 37 leikjum.

„Það er erfitt að fá sæti í enska landsliðinu. Það eru margir efnilegir sóknarmenn svo ég finn til með honum [Gareth Southgate, þjálfara Englands] að þurfa að velja ellefu leikmenn,“ sagði Foden.

„Það er erfitt og það einasta sem ég get gert er að berjast fyrir mínu sæti. Það er allt það sem ég get gert,“ bætti Foden við.

Foden spilaði í 45 mínútur er þeir unnu 5-0 sigur á San Marínó.

„Það er mikilvægt að halda stöðugleika hjá félagi sínu og ég vil gjarnan flytja það form inn í enska landsliðið.“

„Nokkrir leikmenn hafa átt í erfiðleikum hjá félagi sínu og svo hjá landsliðinu en ég vonandi get staðið mig eins og ég hef verið að gera. Ég mun gera mitt besta,“ sagði Foden.

England spilar gegn Albaníu og Póllandi í tveimur síðari landsleikjunum í þessum glugga áður en liðið spilar á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×