Viðskipti innlent

Iðnaðarmenn lögðu milljónamæring í deilu um innréttingar á Fjölnisvegi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ingólfur Abrahim Shahin hefur efnast vel hjá Guide to Iceland.
Ingólfur Abrahim Shahin hefur efnast vel hjá Guide to Iceland. Guide to Iceland

Athafnamanninum Ingólfi Abrahim Shain, eiganda bókunarfyrirtækisins Guide to Iceland, hefur verið gert að greiða trésmíðaverkstæðinu Sérsmíði tæplega 700 þúsund krónur í kjölfar ágreinings um innréttingar á heimili hans við Fjölnisveg 11 í Reykjavík. 

Trésmíðaverkstæðið kvaðst hafa staðið við allar sínar skuldbindingar á meðan Ingólfur vildi meina að fyrirtækið hafi reynt að hlunnfara sig. Dómarinn sagði málavexti Ingólfs ekki eiga við nein rök að styðjast. Málavextir eru þeir að Ingólfur samdi við trésmíðaverkstæðið um nýjar baðinnréttingar skömmu eftir að hann festi kaup á hinu þekkta glæsihýsi við Fjölnisveg árið 2018.

Ágreiningurinn snerist um tvo reikninga sem Sérsmíði gaf út sem hljóðuðu upp á 206 þúsund krónur og 476 þúsund krónur, eða samtals 681 þúsund krónur, sem Ingólfur hafði neitað að greiða en þess í stað farið fram á endurgreiðslu á innborgun sinni þar sem hann hafði ekki fengið innréttinguna afhenta. 

 Trésmiðaverkstæðið bar því hins vegar við að innréttingin hafi verið til reiðu frá því að greiðslan hafi verið innt af hendi – en að aldrei hafi verið samið um afhendingu eða uppsetningu hennar.

Ósannað með öllu að varan hafi ekki verið afhent

Dómurinn var ósammála öllum málatilbúnaði Ingólfs og sagði hann ekki eiga við nein rök að styðjast. 

„Ósannað er með öllu, og reyndar engum gögnum stutt, að stefnandi hafi ekki afhent allt það efni sem stefndi hafi greitt fyrir,“ segir í niðurstöðu dómsins.

„Dómurinn telur að ekki verði annað ráðið en að stefnda [Ingólfi] hafi mátt vera kunnugt um að innréttingin hefði verið til reiðu á starfsstöð stefnanda [Sérsmíði]um langa hríð, ágreiningslaust er að hann er búinn að greiða fyrir hana og engin ástæða hafi verið fyrir hann að ætla annað en að hana gæti hann fengið afhenda á starfsstöð stefnanda eins og upphaflega var samið um,“ segir enn fremur.

Ingólfi var gert að greiða reikningana tvo að fullu en til viðbótar lagðist á málskostnaður upp á 725 þúsund krónur. Heildargreiðsla var því um 1,4 milljónir króna. 

Glæsihýsið við Fjölnisveg 11 er eitt þekktasta hús borgarinnar. Skúli Mogensen átti það um tíma áður en hann seldi athafnamanninum Boga Pálssyni það. Guðmundur í Brim keypti það í framhaldinu og seldi síðan Hannesi Smárasyni það. Ingólfur Shahin keypti húsið í ágúst 2018.

Ingólfur stofnaði bókunarfyrirtækið Guide to Iceland árið 2012 en fyrirtækið er það stærsta sinnar tegundar hér á landi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×