Enski boltinn

Guardiola: Agüero gerði eins og Messi og Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Agüero hefur verið magnaður undanfarin áratug með Manchester City.
Sergio Agüero hefur verið magnaður undanfarin áratug með Manchester City. EPA-EFE/PETER POWELL

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, fór að tala um þá allra stærstu í fótboltasögunni þegar hann ræddi áhrif Argentínumannsins Sergio Agüero í ensku úrvalsdeildinni.

Sergio Agüero og Manchester City tilkynntu það í vikunni að þetta yrði hans síðasta tímabil hjá félaginu en hann mun enda sem enskur meistari og mögulega bæta við fleiri titlum áður en tímabilið er búið.

Sergio Agüero hefur átt magnaðan feril með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni síðan að City keypti hann frá Atlético Madrid árið 2011. Agüero er meðal annars markahæsti erlendi leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 181 mark og þá er hann markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester City.

Pep Guardiola fór að tala um Lionel Messi og Diego Maradona þegar hann var beðinn um að lýsa Sergio Agüero.

„Maradona tók yfir Ítalíu og Messi gerði það sama á Spáni. Agüero hefur síðan gert það á Englandi og tölurnar hans tala sínu máli,“ sagði Pep Guardiola í viðtali við ESPN í Brasilíu.

Diego Maradona kom til Napoli, varð sá besti í heimi og hjálpaði ítalska félaginu að vinna einu meistaratitlana í sögu þess. Lionel Messi hefur unnið 33 titla og skorað 663 mörk fyrir Barcelona.

„Þegar þú hefur þennan eldmóð og spilar svona reiður þá geta hans ótrúlegu hæfileikar komið í ljós og hann getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi,“ sagði Guardiola.

Sergio Agüero hefur alls skorað 257 mörk í 384 leikjum fyrir Manchester City í öllum keppnum. Hann hefur unnið ensku deildina fjórum sinnum, enska bikarinn einu sinni og enska deildabikarinn fimm sinnum.

Ein stærsta stund hans er þegar hann tryggði Manchester City enska titilinn í uppbótatíma í lokaleik 2011-12 tímabilsins en það var fyrsti enski meistaratitill City í 44 ár.

Agüero hefur verið mikið meiddur á þessu tímabili og fékk einnig kórónuveiruna. Hann hefur aðeins byrjað fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni og bara skorað eitt mark.

Hann er nú búinn að ná sér og gæti hjálpað Manchester City að vinna fernuna í vor sem er eitthvað sem ekkert enskt félag hefur náð.

„Hann er mögnuð manneskja og við eigum enn eftir einn og hálfan mánuð saman þar sem við getum unnið fleiri titla og hann skorað fleiri mörk,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×