Bale kom mikið við sögu í leiknum í Cardiff í gær. Hann fékk besta færi Walesverja í fyrri hálfleik og lagði svo eina mark leiksins upp fyrir Daniel James á 82. mínútu.
Stoðsendingin féll samt í skuggann af olnbogaskoti sem Bale gaf Tékkanum Ondrej Kúdela skömmu eftir að James skoraði.
Kúdela hefur verið mikið í fréttum að undanförnu eftir að hann var sakaður um að hafa beitt Glenn Kamara kynþáttaníði í leik Rangers og Slavia Prag í Evrópudeildinni.
Fyrir leikinn hituðu leikmenn Wales upp í stuttermabolum með orðunum „sýnum rasisma rauða spjaldið.“
Bale sýndi stuðning sinn líka í verki með því að gefa Kúdela olnbogaskot sem var greinilega viljandi. Bale leit aftur fyrir sig áður en hann stökk upp og virtist alveg meðvitaður um hvar Kúdela var.
— Oldfirmfacts (@Oldfirmfacts1) March 30, 2021
Upphaflega átti Kúdela ekki að spila leikinn í gær. Slavia Prag vildi ekki að hann ferðaðist til Wales þar sem félagið óttaðist um öryggi hans. Það gaf hins vegar eftir á endanum og Kúdela var í byrjunarliði Tékka í gær. Hann fór af velli eftir olnbogaskotið frá Bale.
Með sigrinum í gær fékk Wales sín fyrstu stig í E-riðli undankeppninnar. Walesverjar eru í 3. sæti hans með þrjú stig, einu stigi á eftir Tékkum sem hafa leikið einum leik meira.