Umfjöllun: Liechtenstein - Ísland 1-4 | Kærkominn sigur í Vaduz

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Birkir Már Sævarsson fagnar marki sínu með nýliðanum Sveini Aroni Guðjohnsen.
Birkir Már Sævarsson fagnar marki sínu með nýliðanum Sveini Aroni Guðjohnsen. Getty/DeFodi Images

Ísland vann kærkominn sigur á Liechtenstein, 1-4, þegar liðin áttust við á Rheinpark Stadion í Vaduz í kvöld. Birkir Már Sævarsson, Birkir Bjarnason, Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson (víti) skoruðu mörk Íslendinga. Yanik Frick skoraði mark Liechtensteina beint úr hornspyrnu.

Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins í undankeppni HM 2022 og fyrsti sigur þess undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.

Ísland stöðvaði þarna líka sjö tapleikja hrinu. Sigurinn var afar vel þeginn eftir erfiða byrjun á undankeppni HM. Frammistaðan var líka að mestu góð þótt andstæðingurinn hafi verið afar slakur.

Arnar Þór gerði sex breytingar á byrjunarliði Íslands frá leiknum gegn Armeníu. Meðal þeirra sem komu inn í byrjunarliðið var Sveinn Aron Guðjohnsen sem lék sinn fyrsta landsleik. Hann var öflugur í fremstu víglínu og lét finna fyrir sér.

Kröftug byrjun

Íslenska liðið byrjaði leikinn af fítonskrafti, þjarmaði vel að heimamönnum og dældi boltanum inn á vítateig þeirra. Á fyrstu tuttugu mínútum fékk Ísland átta hornspyrnur og átti fjögur skot á markið. Eitt þeirra fór í netið, á 12. mínútu, en það var sannkallað bakvarðamark.

Eftir góða sókn sendi Hörður Björgvin Magnússon fyrir frá vinstri inn á vítateiginn þar sem Birkir Már var og skallaði boltann í netið. Þetta var þriðja landsliðsmark Valsmannsins en tvö þeirra hafa komið gegn Liechtenstein.

Íslenska liðið missti aðeins dampinn eftir um hálftíma án þess þó að lenda í neinum vandræðum. Arnór Ingvi Traustason fékk ágætis færi á 43. mínútu en skaut í varnarmann.

Frábær endir á fyrri hálfleik

Á lokamínútu fyrri hálfleiks tvöfaldaði Birkir forskot Íslendinga. Aron Einar Gunnarsson átti þá frábæra skiptingu frá hægri yfir til vinstri á Arnór Ingva. Hann skallaði boltann fyrir Birki sem var á undan Ospelt og potaði boltanum í markið.

Það kom lítið á óvart að Birkir skyldi skora svona mark en hann var mjög ógnandi í leiknum og duglegur að skila sér inn á vítateiginn. Þetta var fjórtánda landsliðsmark Birkis en með því jafnaði hann Ríkharð Daðason og Arnór Guðjohnsen á markalista landsliðsins.

Staðan í hálfleik var 0-2, Íslandi í vil. Aron Einar var tekinn af velli í hálfleik og Rúnar Már kom inn á í hans stað.

Á 55. mínútu fékk Hjörtur Hermannsson dauðafæri á markteig eftir fyrirgjöf Harðar Björgvins en hitti ekki markið. Sjö mínútum síðar átti Jóhann Berg Guðmundsson fast skot framhjá marki Liechtenstein.

Flatt en fjör í lokin

Seinni hálfleikurinn var annars frekar tíðindalítill. Íslendingar spiluðu ekki af sama krafti og í fyrri hálfleiknum og settu Liechtensteina ekki undir sömu pressuna, ekki fyrr en eftir um sjötíu mínútur.

Á 73. mínútu fékk varamaðurinn Arnór Sigurðsson hægra megin í vítateignum og átti skot sem Ospelt varði. Skömmu síðar komst Arnór Ingvi í dauðafæri en aftur varði Ospelt.

Á 77. mínútu skoraði svo Guðlaugur Victor sitt fyrsta landsliðsmark með skalla eftir aukaspyrnu Jón Dags Þorsteinssonar sem var nýkominn inn á sem varamaður.

Hræðilegt mark að fá á sig

Skömmu síðar gerðu Liechtensteinar sér loks ferð inn í vítateig Íslendinga og Maximilian Göppel átti fast skot sem Rúnar Alex Rúnarsson varði.

Frick tók hornspyrnuna, sem var sú eina sem Liechtenstein fékk í leiknum, og skoraði úr henni. Ótrúlegt að sjá svona mark á þessu getustigi og ekki boðlegt hjá Rúnari Alex að fá það á sig. Hann hefur ekki fengið mörg tækifæri með landsliðinu en nýtt þau sem hann hefur fengið illa.

Varamaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson kom boltanum í netið í uppbótartíma en gerði það með höndinni og markið var dæmt af.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Ísland vítaspyrnu þegar Alexander Marxer braut á Rúnari Má. Skagfirðingurinn tók vítið sjálfur og skoraði af öryggi, sitt fyrsta landsliðsmark síðan 2012.

Andartaki síðar var flautað til leiksloka og 1-4 íslenskur sigur staðreynd. Ísland er því komið á blað í undankeppninni og framundan eru fimm heimaleikir í henni í röð. Leiðin til Katar verður ekki greið en hún er enn fær.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira