Fótbolti

Segir mikla pressu á Sveini vegna nafnsins en að hann höndli hana vel

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson veðjaði á Svein Aron Guðjohnsen sem komst ágætlega frá sínu í fyrsta A-landsleiknum.
Arnar Þór Viðarsson veðjaði á Svein Aron Guðjohnsen sem komst ágætlega frá sínu í fyrsta A-landsleiknum. EPA/CHRISTIAN MERZ

„Það er pressa á drengnum en það er ótrúlegt hvað hann höndlar það vel. Hann er bara svo vel gerður. Það hlýtur að koma úr móðurætt,“ sagði Arnar Þór Viðarsson léttur í bragði þegar hann ræddi um Svein Aron Guðjohnsen eftir sigurinn á Liechtenstein í kvöld.

Sveinn Aron lék sinn fyrsta A-landsleik í kvöld, í fremstu víglínu í 4-1 sigri. Arnar gjörþekkir Svein úr U21-landsliðinu og ákvað að tefla honum fram í byrjunarliði eftir að hafa kallað í hann af Evrópumótinu í Ungverjalandi.

Sveinn er vitaskuld sonur Eiðs Smára, aðstoðarþjálfara, og ákvað Arnar að Eiður myndi ekki koma að því að ákveða hver yrði fremstur í kvöld heldur ráðfæra sig aðeins við Lars Lagerbäck um það. Arnar tók undir það á blaðamannafundi eftir leik að Sveinn væri á vissan hátt „auðveldara skotmark“ í ljósi þess að pabbi hans væri í þjálfarateyminu.

Mjög erfið staða, sérstaklega fyrir Svein Aron

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta er mjög erfið staða, sérstaklega fyrir Svein Aron. Hvaða framherji sem er, sem hefði verið markahæstur í undankeppni EM U21-landsliða, skorað í lokakeppninni, og staðið sig mjög vel í þessum tveimur leikjum á EM... Ef hann bæri ekki nafnið Guðjohnsen væri talið mjög eðlilegt að hann fengi núna hægt og rólega fyrstu möguleikana með A-liðinu. Það er mikil pressa á Sveini út af þessu,“ sagði Arnar.

Sveinn Aron Guðjohnsen í fyrsta landsleiknum sínum í Vaduz í kvöld.DeFodi Images/Getty

Eins og fyrr segir hafði Eiður ekkert að segja um það hver yrði framherji í kvöld. Arnar taldi ekki hægt að gera þá kröfu á Eið að útiloka föðurtilfinningarnar:

„Við höfum þann vana að ræða málin, greina andstæðinginn og svo bið ég þjálfarana að stilla upp liðinu eins og þeir telja best. Núna sagði ég Eiði að velja ekki senter í þennan leik. Það er ekki til að verja Svein Aron. Sem þjálfari þarftu að útiloka tilfinningar mjög mikið en það er erfitt að útiloka föðurtilfinningar.. Við afgreiddum þetta mál því svona. Við Lars tókum ákvörðun með senterinn, og að mínu mati var þetta rétt ákvörðun fyrir þennan leik og þessa strategíu,“ sagði Arnar.

Valið á milli Hólmberts og Sveins

Arnar segir valið um framherja í raun hafa staðið á milli Sveins og Hólmberts Arons Friðjónssonar. Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliðinu gegn Þýskalandi og Armeníu, Albert Guðmundsson í banni og Kolbeinn Sigþórsson meiddur.

„Jón Daði var búinn að skila inn tveimur erfiðum vöktum. Það var mikil vinnsla á honum og hann var búinn að standa sig mjög vel með þau hlutverk sem við gáfum honum. Þetta var bara hluti af álagsstýringu. Þá var valið á milli Hólmberts og Sveins. Við töldum það sem við þurftum á að halda í leiknum í dag henta Sveini aðeins betur en Hólmberti. Það er ekkert annað þar á bakvið. Síðan kom Hólmbert inn og gerði það mjög vel, eftir að Sveinn var búinn með sína vakt,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Liechtenstein - Ísland 1-4 | Kærkominn sigur í Vaduz

Ísland vann kærkominn sigur á Liechtenstein, 1-4, þegar liðin áttust við á Rheinpark Stadion í Vaduz í kvöld. Birkir Már Sævarsson, Birkir Bjarnason, Guðlaugur Victor Pálsson og Rúnar Már Sigurjónsson (víti) skoruðu mörk Íslendinga. Yanik Frick skoraði mark Liechtensteina beint úr hornspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×