Á fundi ríkisstjórnarinnar 30. mars síðastliðinn voru meðal annars tvö mál á dagskrá: Hið fyrra sneri að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra: Staða og framkvæmd á landamærunum. Hið seinna að Svandísi: Aðgerðir á landamærum - ný reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19.
Höfðu verið vöruð við
Af fundarefni má ráða að þær Katrín Jakobsdóttir og Áslaug Arna hafi komið að hinum ólögmætu aðgerðum auk Svandísar. Vísir hefur heyrt í stjórnarandstöðuþingmönnum í morgun.
Nú stendur yfir fundur í velferðarnefnd sem Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar stýrir. Hún hafði því ekki tök á að tjá sig um málið, sagði þó að hún hafi bent á meinbugi þessara aðgerða áður og oft. Helga Vala vísaði í þingræður, til dæmis frá 28. janúar þar sem hún sagði meðal annars:
„Ekki er heimild fyrir því lengur að skylda fólk í sóttvarnahús en verið er að skýra betur sóttvarnahús þannig að heimildir séu til að opna slíkt hús á vegum stjórnvalda. Ég myndi telja mikilvægt að hafa skýrt valdboð til stjórnvalda um að þeim beri að halda úti sóttvarnahúsi ef þau leggja það á fólk að vera í slíku húsi, þ.e. þegar sú staða er komin upp, tilmæli til fólks um að fara í sóttvarnahús, þá sé um leið skýrt valdboð á stjórnvöldum að hafa slíkt hús til reiðu.“
Svandís viss í sinni sök
Í umræðu tveimur dögum fyrr, undir liðnum „Hertar sóttvarnarreglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra, spurði Helga Vala um hvort heilbrigðisráðherra telji „lagaheimildir vera nógu skýrar til þess að skylda alla ferðamenn og heimafólk til dvalar í sóttvarnahúsi ef þau koma frá rauðum löndum“?
Svör Svandísar voru afdráttarlaus. „Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Fyrst spurningin um það hvort lagaheimild sé fyrir því að nýta sóttvarnahús. Já, það er lagaheimild fyrir því sem Alþingi afgreiddi hér.“
Ráðherra er hér býsna viss í sinni sök en annað átti eftir að koma á daginn ef marka má niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Sú niðurstaða hefur þó verið kærð til Landsréttar.